Hafa ber hugfast að neyðarvegabréf eru ekki ákjósanlegustu ferðaskilríki sem völ er á og duga engan veginn sem fullgild skilríki til langdvalar erlendis. Þau duga t.d. ekki til að ferðast til Bandaríkjanna án áritunar.

Í ársbyrjun 2009 voru hertar reglur um útgáfu neyðarvegabréfa. Nú er ekki lengur næg ástæða að hafa gleymt vegabréfinu heima eða gleymt að endurnýja það. Þeim sem eru á leið í utanlandsferð er vinsamlegast bent á að endurnýja vegabréf sín tímanlega fyrir brottför, geyma þau á vísum stað og ganga úr skugga um að þau séu meðferðis áður en lagt er af stað heiman frá.

Lögreglustjórum, íslenskum sendiskrifstofum og kjörræðismönnum, sem heyra undir íslensku utanríkisþjónustuna, er heimilt að gefa út vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf) ef brýna nauðsyn ber til. Umsækjandi um neyðarvegabréf skal leggja fram sambærileg gögn eins og þegar sótt er um almennt vegabréf, og að auki 2 ljósmyndir. Áður en neyðarvegabréf er gefið út skal starfsmaður kanna þær upplýsingar sem skráðar eru í vegabréfaskrá, með sambærilegum hætti og um almenna útgáfu væri að ræða, og ganga úr skugga um að öll skilyrði til útgáfunnar séu uppfyllt. Alla útgáfu neyðarvegabréfa skal tilkynna Þjóðskrá Íslands þegar í stað svo hægt sé að færa hana í vegabréfaskrá. Gildistími neyðarvegabréfs ræðst af þeim ástæðum sem gera útgáfu þess nauðsynlega, en skal þó aldrei vera lengri en tólf mánuðir. Neyðarvegabréfi skal skila til lögreglu við komu til landsins eða til sendiskrifstofu erlendis.

Nánari upplýsingar veitir Lögreglan á Suðurnesjum í síma 420 1820 og íslenskar sendiskrifstofur.

Unnt er að framlengja gildistíma vegabréfs sem nýlega hefur runnið út, eða er að renna út á næstu mánuðum, þó ekki lengur en svo að upprunalegur gildistími þess framlengist um eitt ár. Sýslumenn og íslenskar sendistofnanir erlendis annast þessa þjónustu umsækjendum að kostnaðarlausu á auglýstum afgreiðslutíma.

Standi valið milli þess að framlengja gildistíma eldra vegabréfs eða gefa út neyðarvegabréf, skal framlengja gildistíma eldra vegabréfs.


Leit

Leit