Ég þarf að fá hærra lán með veði í íbúðinni minni en bankinn segir að brunabótamatið sé of lágt. Get ég fengið hækkun á brunabótamatinu?

Brunabótamat er útreiknaður kostnaður við að endurbyggja húsið á sama stað en tekið er tillit til ástands og aldurs hússins. Við skoðun á húsinu eru byggingarefni og gerð hússins metin. Einnig er tekið mið af innréttingum, gólfefnum, hurðum, gluggum, útveggjum, innveggjum og þaki, svo eitthvað sé nefnt.

Brunabótamat breytist mánaðarlega í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu. Brunabótamatið er afskrifað í lok hvers árs og lækkar því eftir því sem húsið eldist. Gert er ráð fyrir því í mati hússins að eðlilegar endurbætur fari fram á húsinu og að ákveðnir byggingahlutar séu endurnýjaðir á nokkurra ára eða áratuga fresti.

Til þess að brunabótamatið hækki þarf að auka verðmæti hússins. Það þýðir að ef skipt hefur verið um innréttingar og gólfefni þurfa þau að vera í hærra verðflokki en þau sem fyrir voru. Brunabótamatið mun þá einungis hækka um mismuninn á þessum verðflokkum. Brunabótamatið hækkar líka ef bætt er við innréttingar eða bætt við einangrun eða utanhússklæðningu.

Nánari upplýsingar um brunabótamat.

Hvers vegna er brunabótamatið á eigninni minni svona miklu lægra en söluverð?

Brunabótamat er útreiknaður kostnaður við að endurbyggja húsið á sama stað að teknu tilliti til ástands og aldur hússins. Ekki skiptir máli við útreikning brunabótamats hvar á landinu húsið er staðsett en brunabótamatið lækkar því eftir því sem húsið eldist.Gjöld vegna lóðar ásamt lóðarmati eru ekki inni í brunabótamati hússins.

Söluverðmæti fasteigna fer mikið eftir staðsetningu, fasteignir í miðbæ Reykjavíkur eru til dæmis dýrari en fasteignir úti á landi. Fasteignaskrá Íslands skráir söluverðmæti allra þinglýstra kaupsamninga og fær þannig upplýsingar um söluverðmæti eigna á öllu landinu. Fasteignamat tekur mið af söluverðmætinu ásamt ástandi og byggingarefnum hússins.

Ef brunabótamatið hjá mér hækkar þarf ég þá að borga meiri gjöld af húsinu?

Hækkun á brunabótamati getur leitt til hækkunar á fasteignamati. Fasteignamat tekur mið af söluverðmætinu ásamt ástandi og byggingarefnum hússins.

Ef fram koma nýjar upplýsingar um ástand og gerð húss við skoðun þess getur það haft áhrif á fasteignamatið. Fasteignagjöld sveitarfélaganna taka mið af fasteignamati. Ef fasteignamatið hækkar þá hækka fasteignagjöldin líka.

Tryggingafélögin miða iðgjöld af brunatryggingum við brunabótamatið svo ef það hækkar þá hækkar verð trygginganna líka.


Leit

Leit