Hvað er að finna í skránni?

Fasteignaskrá geymir allar grunnupplýsingar um lönd, lóðir og spildur auk mannvirkja sem á þeim standa. Í henni er einnig að finna upplýsingar um stærðir lóða og mannvirkja, upplýsingar um byggingarefni og lýsingu á viðkomandi mannvirki, auk fasteigna- og brunabótamats. Fasteignaskrá geymir til viðbótar upplýsingar um þinglýst réttindi, svo sem um eigendur, veðbönd og kvaðir.

Opinn og læstur aðgangur

Veittur er aðgangur að grunnupplýsingum á borð við stærð fasteignar, brunabótamat og fasteignamat á opnu svæði. Gefinn er kostur á að nálgast ítarlegri upplýsingar um lóðir og mannvirki í læstum aðgangi.

Hvað er fasteignaskrá?

Fasteignaskrá er gagna- og upplýsingakerfi sem Þjóðskrá Íslands annast. Skráin geymir upplýsingar um fasteignir og réttindi sem þeim tengjast. Fasteignaskrá er ein altæk skrá fyrir mörg stjórnvöld og leysir af hólmi fasteignaskrár sveitarfélaga og þinglýsingabækur sýslumanna um fasteignir.

Hver annast skráningu í fasteignaskrá?

Ýmsir aðilar koma að skráningu upplýsinga í fasteignaskrá:

  1. Aðgangur að þinglýsingarkerfi fyrir starfsmenn sýslumannsembætta.
  2. Aðgangur að Bygging fyrir starfsfólk byggingarfulltrúa sveitarfélaga.
  3. Aðgangur að álagningarkerfi fasteignagjalda fyrir starfsfólk álagningardeilda sveitarfélaga.

Þjóðskrá Íslands sér um skráningu á brunabóta- og fasteignamati ásamt forsendum þess. Byggingafulltrúar sveitarfélaganna skrá inn ný lönd, lóðir og mannvirki og sýslumannsembætti skrá og þinglýsa skjölum rafrænt í þinglýsingarhluta fasteignaskrár. Sumar tegundir upplýsinga eru aðeins færðar í skrána með samvinnu allra ofangreindra skráningaaðila, til dæmis nýjar fasteignir og eignaskiptayfirlýsingar.

Fyrirspurnir sendist á skra@skra.is.


Leit

Leit