Eignaskiptayfirlýsingar

Hvað er eignaskiptayfirlýsing?

Eignaskiptayfirlýsing er lögboðinn skriflegur gjörningur eigenda fjöleignarhúss sem gerður er á grundvelli fyrirmæla fjöleignarhúsalaga og geymir lýsingu á húsinu og lóð þess og mælir fyrir um skiptingu þess í séreignir, sameign allra og sameign sumra og ákvarðar hlutdeild hvers eiganda í sameign og markar með því grundvöll að réttindum og skyldum eigenda innbyrðis og gagnvart einstökum hlutum húss og lóðar. 

Eignaskiptayfirlýsing er m.ö.o. skjal sem kveður á um skiptingu fjöleignarhúss í eignarhluta. Hverjum séreignarhluta er lýst og tilgreint hvað honum fylgir sérstaklega. Þá kemur fram hvaða hlutar húss séu í sameign og hvort sú sameign tilheyri öllum eigendum eða einungis sumum og þá hverjum. Þá er kveðið á um atriði eins og hlutfallstölur, kvaðir, réttindi til bílskúra, bílastæða og byggingar. 

Eignaskiptayfirlýsing er því aðalheimildin um skiptingu fjöleignarhúss í séreign og sameign og getur komið í veg fyrir margvíslegan ágreining milli eigenda.

Eignaskiptayfirlýsingu er þinglýst og á grundvelli hennar ganga eignarhlutar kaupum og sölum, eru veðsettir, kvaðabundnir, á þá lögð opinber gjöld, tilteknum kostnaði í húsinu skipt niður, vægi atkvæða metið á húsfundum í vissum tilvikum o.fl.

Er til eignaskiptayfirlýsing fyrir húsið þitt?

Upplýsingar um það fást hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Ef eignaskiptayfirlýsing er ekki fyrir hendi eða hún er ófullnægjandi þarf að halda húsfund um málið og taka ákvörðun um að láta gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið.

Nauðsynlegt er að húsfélög í þeim fjöleignarhúsum sem enn hafa ekki látið gera eignaskiptayfirlýsingu eða þar sem eignaskiptasamningur er ófullnægjandi bregðist skjótt við og láti sem fyrst gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið svo koma megi í veg fyrir tafir og erfiðleika í fasteignaviðskiptum.

Hverjir gera eignaskiptayfirlýsingar?

Þeir einir mega gera eignaskiptayfirlýsingar sem lokið hafa prófi í gerð eignaskiptayfirlýsinga og fengið til þess sérstakt leyfi félagsmálaráðuneytis. Eftir að eignaskiptayfirlýsing hefur verð gerð þurfa eigendur að undirrita hana, byggingarfulltrúi þarf að staðfesta hana og að lokum er henni þinglýst.

Sjá nánar