Aðrar upplýsingar sem varða flutning

 • Þinglýstir eigendur, sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir og aðrir geta samkvæmt lögum sent beiðni um að lögheimili tiltekins einstaklings sé fært. Þegar beiðni um flutning þriðja aðila berst þjóðskrá eru upplýsingar metnar og málið sett í viðeigandi farveg.
 • Tilkynning vegna flutnings fyrirtækja/félaga er á vef Ríkisskattstjóra.
 • Munið að láta Póstinn vita um breytt heimilisfang. Athugið að Íslandspóstur fær ekki sjálfvirkt tilkynningar um flutning frá þjóðskrá.

Reglur

 • Tilkynnið flutning innan 7 daga. Ekki er tekið á móti flutningstilkynningum vegna flutninga fram í tímann.
 • Tímabundið aðsetur: Námsmenn sem dveljast í öðru sveitarfélagi vegna skólagöngu geta haldið lögheimili í heimabyggð. Haka skal við tilheyrandi reit á eyðublaðinu. Vottorð frá skóla verður að fylgja.
 • Flutningur barna 17 ára og yngri:
  • Í tilvikum þar sem forsjá er sameiginleg og flytja á barn eitt milli aðila t.d. frá einu forsjárforeldri til annars þarf samningur um breytt lögheimili barns að hafa borist frá sýslumanni til Þjóðskrár Íslands.
  • Ef forsjárforeldrar eru í hjúskap eða skráðri sambúð með hvort öðru og flytja á barn eitt til þriðja aðila þarf að tilgreina hverjum barnið á að tengjast í þjóðskrá. Skriflegt samþykki þess sem barnið á að tengjast þarf að fylgja með flutningstilkynningunni. Fullnægjandi er að annað forsjárforeldrið undirriti tilkynninguna í tilvikum sem þessum, nema í tilvikum þar sem börn eru flutt milli landa með öðru foreldri.
 • Ef fólk er í hjónabandi eða skráðri sambúð nægir að annað þeirra undirriti tilkynningu um flutning þeirra og barna undir lögaldri. 
 • Flutningur 18 ára og eldri: Sá sem er ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þarf sjálfur að tilkynna flutning sinn. Einstaklingar geta ekki tilkynnt flutning lögráða barna sinna eða foreldra. 
 • Annað hjóna flytur:  Hjón eiga að eiga sama lögheimili.  Ef skilnaður er fyrirhugaður þá þarf staðfesting á fyrirtöku skilnaðar hjá sýslumanni að fylgja með og jafnframt þarf að tilgreina í athugasemdum að um fyrirhugaðan skilnað er að ræða. Ef fólk í hjúskap er að taka upp samvistir á ný, t.d. eftir skilnað að borði og sæng, þá tilgreinist það í athugasemdum. Sá maki sem flutt er til þarf að staðfesta samvistirnar. Ef lögskilnaður fór fram erlendis skal leggja fram gögn þess eðlis.
 • Ekki er hægt að skrá sig úr sambúð á grundvelli flutningstilkynningar þegar sambúðaraðilar eiga börn saman. Ekki skal senda inn flutningstilkynningar vegna sambúðarslita þegar börn eru annars vegar fyrr en staðfesting á forsjá barna frá sýslumanni liggur fyrir.

Leit

Leit