Algengar spurningar vegna flutnings EES / EFTA ríkisborgara til landsins

Hver er lágmarks framfærsla?

Lágmarksframfærsla er miðuð við útgefinn framfærslustuðul sveitarfélaga og þarf einstaklingur að sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann dvelur á Íslandi.  Þjóðskrá Íslands miðar við lágmarksfærslustuðul velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.  Frá og með 5. september 2016 er miðað við stuðul samþykktan af velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 18. desember 2015.
Lágmarksframfærsla einstaklings 18 ára og eldri miðast að lágmarki við 180.550 kr. á mánuði (grunnfjárhæð) og 270.825 kr. á mánuði fyrir hjón/sambúðarfólk. Upphæðir miðast við tekjur fyrir skatt. 

Einstaklingar á framfæri annarra:

  • Börn yngri en 18 ára eru á framfæri foreldra sinna og ekki þarf að sýna fram á sérstaka/aukalega framfærslugetu vegna þeirra.
  • Börn eldri en 18 ára á framfæri foreldra sinna. Foreldrar þurfa að sýna fram á eigin framfærslu auk 90.275 kr. fyrir hvert barn eldra en 18 ára á framfæri þeirra.
  • Einstaklingur á framfæri ættingja eða aðstandenda. Sýna þarf fram á eigin framfærslu auk 152.123 kr. fyrir hvern einstakling sem er á framfæri ættingja/aðstandenda.

Hvaða kröfur eru gerðar til fylgigagna?

Þjóðskrá Íslands gerir kröfur til erlendra gagna.

Hvað er staðfest afrit af fylgiskjölum?

Ávallt er gerð krafa um staðfest afrit af frumritum ef frumritin sjálf berast ekki. Staðfest afrit er staðfesting þess sem tekur á móti umsókninni um að viðkomandi hafi móttekið frumrit, ljósritað þau og stimplað. Þeir sem mega staðfesta afrit eru bæjarskrifstofur, sýsluskrifstofur og Þjóðskrá Íslands.

Hvað er ferðaskilríki? 

Ferðaskilríki er vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki í stað vegabréfs við komu til landsins, sbr. viðauka 2 við reglugerð 53/2003 með síðari breytingum.

Hvar fær maður staðfestingu á lífeyrisgreiðslum eða staðfestingu á nægjanlegum föstum reglubundnum greiðslum?

Vottorð eða staðfesting frá þeim sem greiðir út lífeyri, eða stimpluð útskrift frá banka um innstæðu.

Hvað er framfærsluyfirlýsing?

Vottuð yfirlýsing um að viðkomandi muni framfæra einstaklingi sem sækir um skráningu í þjóðskrá auk gagna sem sýna fram á framfærslugetu viðkomandi.  

Þarf ráðningarsamningur að uppfylla einhver lágmarksskilyrði? 

Ráðningasamningur þarf að minnsta kosti að uppfylla þau skilyrði um upplýsingar sem koma fram á eyðublöðum A-265 (íslenska) og A-266 (enska), staðfesting vinnuveitanda. Ekki er gerð krafa um lágmarks starfshlutfall en viðkomandi þarf að sýna fram á lágmarks framfærslugetu.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá skráningu í þjóðskrá sem nemi?

Skólinn þarf að vera viðurkennd námstofnun sbr. upplýsingar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Umsækjandi þarf að vera að minnsta kosti 18 ára og markmið dvalar hans sé að öðlast menntun. Staðfesting frá viðkomandi skóla þarf að fylgja umsókn.

Hvernig vottorð þarf frá vinnuveitanda við skráningu inn í landið? 

Eyðublað A-265 (íslenska) og A-266 (enska), staðfesting vinnuveitanda, eða ráðningasamning sem inniheldur sömu upplýsingar og eru á umræddum eyðublöðum.

Hvernig staðfestir maður fjölskyldutengsl ef framfærsla kemur frá maka eða öðrum aðstandenda?

Vottorð þarf að koma frá þar til bæru stjórnvaldi í heimalandi viðkomandi eða þar sem einstaklingur var síðast skráður. Vottorðið þarf að uppfylla kröfur Þjóðskrár Íslands. Dæmi um vottorð sem geta gefið til kynna fjölskyldutengsl eru hjónavígsluvottorð, fæðingarvottorð og fjölskylduvottorð. 

Hvað er „samþykki foreldris sem ekki flytur“? 

Forsjárvottorð eða úrskurður um forsjá frá þar til bæru stjórnvaldi í heimalandi viðkomandi eða þar sem einstaklingur var síðast skráður. Samþykki forsjármanns á að vera lögformleg staðfesting (notarial) eða vottað samþykki auk þess sem ljósrit af vegabréfi viðkomandi þarf að fylgja. Ekki er gerð krafa um form en skjöl þurfa að uppfylla kröfur Þjóðskrár Íslands um erlend gögn.

Hvað er skyldleikavottorð?

Vottorð sem sýnir fram á skyldleika, til dæmis fjölskylduvottorð eða fæðingarvottorð frá þar til bæru stjórnvaldi í heimalandi viðkomandi eða þar sem einstaklingur var síðast skráður.  

Hversu langan tíma tekur að afgreiða skráninguna og fá úthlutaða kennitölu? 

Þrjár vikur að því gefnu að öll gögn séu rétt og uppfylli skilyrði Þjóðskrár Íslands.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að dvelja á Íslandi sem AuPair?

Viðkomandi þarf að vera á aldrinum 18-25 ára. Ef viðkomandi hyggst dvelja umfram 3-6 mánuði þarf hann sækja um skráningu í þjóðskrá og merkja við reit 8b) sem ástæðu umsóknar. Með umsókninni þarf að fylgja undirritaður samningur um vistráðningu á milli beggja aðila þar sem fram kemur meðal annars gildistími samnings, hlunnindi að því er varðar fæði og húsnæði, daglegur vinnutími, daglegur og vikulegur hvíldartími, réttur til að stunda nám og ákvæði um sjúkra- og slysatryggingar. Að auki þarf að koma fram að fæði og húsnæði þess sem ráðinn er í vist sé án endurgjalds og að hinn vistráðni hafi sérherbergi til afnota. Að lokum þá þarf að koma fram í samningi að vistfjölskylda ábyrgist greiðslu á heimflutningi útlendings að starfstíma loknum, ef um er að ræða ráðningarslit eða ef útlendingur verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slysa, og vistfjölskylda tryggir að hinn vistráðni fái nægjanlegan tíma til íslenskunáms og til að geta sinnt eigin áhugamálum. Sniðmát af samningi er t.a.m. aðgengilegt hér.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að dvelja sem sjálfboðaliði á Íslandi?

Sjálfboðaliði þarf að vera á aldrinum 18-30 ára. Sjálfboðaliði skal koma til landsins á vegum samtaka sem viðurkennd eru hér á landi af EUF. Ef sjálfboðaliði hyggst dvelja umfram 3-6 mánuða þá þarf hann að sækja um skráningu í þjóðskrá og merkja við reit 8a) sem ástæðu umsóknar. Með umsókninni þarf að fylgja undirritaður samningur á milli einstaklingsins og samtakanna. Samningurinn má ekki vera skemmri en 3 mánuðir og í honum þurfa að koma fram ákvæði sambærileg þeim sem þurfa að koma fram í vistráðningasamningum AuPair.


Leit

Leit