Þjóðskrá Íslands hefur látið smíða vefkerfi sem sveitarfélögum býðst að vinna með þar sem haldið er utan um skráningu kjördeilda og kjörstaða í sveitarfélaginu. Notkun kerfisins, sem kallast Kjördeildakerfi,  kemur til með að spara sveitarfélögunum mikla vinnu þegar kemur að röðun í kjördeildir og kjörstaði. Auk þess stuðla þessar breytingar að betri uppröðun í prentútgáfu kjörskrár sem auðveldar leit og uppflettingar í kjörskrá hvers sveitarfélags fyrir sig.

Virkni kerfisins felst í því að sveitarfélag tilgreinir kjörstaði sveitarfélagsins og raðar svo heimilisföngum í kjördeildir og kjörstaði. Með því fást heildstæðar upplýsingar og yfirlit yfir öll heimilisföng í sveitarfélagi, á hvaða kjörstað kjósendur með búsetu á hverju heimilisfangi eiga að kjósa og í hvaða kjördeild. Þessi vinnsla er unnin á undirliggjandi bráðabirgðakjörskrárstofni og því sjást á hverjum tíma fjöldatölur kjósenda á hverju heimilisfangi. Fram að viðmiðunardegi kjörskrár verða eðlilega breytingar á högum fólks og því er gert ráð fyrir því að mögulegt sé að yfirfara skráninguna og breyta henni alveg fram að viðmiðunardegi kjörskrárstofns.

Meginhagræðið af notkun kerfisins felst í því að prentútgáfa kjörskrárstofnsins mun endurspegla skráningu sveitarfélags í kjördeildir og kjörstaði. Uppsetning á prentútgáfu kjörskrárstofnsins (kjörskrárinnar) verður því í samræmi við skráningu sveitarfélagsins á kjörstöðum og kjördeildum.

Hvað varðar kjósendur án heimilisfangs á Íslandi verður það fyrirkomulag óbreytt, t.d. einstaklingar sem eru skráðir óstaðsettir í hús og þeir Íslendingar sem hafa lögheimili erlendis en eiga engu að síður kosningarétt hér á landi, munu raðast fremst í prentútgáfu kjörskrárstofns í þá kjördeild sem valin er fyrir þessa einstaklinga.

Upplýsingar um kjörstaði og kjördeildir nýtast jafnframt fyrir almenning og birtast í vefuppflettingunni „Hvar á ég að kjósa“ á www.island.is og www.kosning.is, þar sem finna má upplýsingar um kjördeild og kjörstað kjósenda.

Þjóðskrá Íslands hvetur öll sveitarfélög, stór sem smá, til þess að kynna sér þetta kerfi og nýta það við undirbúning kosninga.

Sækja má um aðgang að kerfinu hér, sjá eyðublað A-500 Umsókn um aðgang að kjördeildarkerfi.

Fyrirspurnir sendist á skra@skra.is.


Leit

Leit