Sveitarstjórnir semja kjörskrár eftir kjörskrárstofnum sem Þjóðskrá Íslands lætur þeim í té. Á stofnum þeim, sem hún hefur unnið vegna forsetakjörsins 25. júní 2016 eru 245.004 kjósendur og er fjöldi karla og kvenna svo til jafn. Konur eru 122.870 en karlar 122.134. Í endanlegri tölu kjósenda á kjörskrá, sem birt verður í skýrslu um kosningarnar, verður tekið tillit til tölu látinna og þeirra sem fá nýtt ríkisfang eftir að kjörskrárstofnar voru unnir, svo og breytinga sem verða á kjörskrá vegna leiðréttinga. Við forsetakjör 30. júní 2012 voru 235.743 kjósendur á kjörskrá og nemur fjölgunin 9.261 eða 3,9%.

Kjósendur með lögheimili erlendis eru 13.077 eða 5,3% kjósendatölunnar og hefur þeim fjölgað um 820 frá síðusta forsetakjöri eða um 6,7%. Kjósendum með lögheimili hér á landi fjölgar um 8.441 eða 3,8%. Þeir sem vegna aldurs fá nú að kjósa í fyrsta sinn við forsetakjör eru 17.822 eða 7,3% af kjósendatölunni. 

Kosningarrétt við forsetakjör á hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili hér á landi. Íslenskur ríkisborgari, sem náð hefur 18 ára aldri og átt hefur lögheimili hér á landi, á og kosningarrétt í átta ár frá því hann flutti lögheimili af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag. Slíkur ríkisborgari á og kosningarrétt hér á landi eftir þann tíma, enda sé um það sótt. Ákvörðun um að einhver sé þannig á kjörskrá tekinn gildir í fjögur ár eftir að umsókn var lögð fram. Nú eru á kjörskrárstofnum 394 kjósendur sem svo stendur á um.

Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu skráð lögheimili á viðmiðunardegi þremur vikum fyrir kjördag, þann 4. júní 2016. Flutningur lögheimilis eftir þann tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá.

Þeir íslenskir ríkisborgarar, sem lögheimili eiga erlendis en sem kosningarétt eiga við forsetakosningarnar, eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu síðast skráð lögheimili hér á landi. Þeir sem lögheimili áttu í Reykjavík skiptast þannig milli Reykjavíkurkjördæmanna að þeir sem fæddir eru 1. til 15. hvers mánaðar eru á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður en þeir sem fæddir eru 16. dag mánaðar eða síðar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hið sama gildir um þá sem skráðir eru óstaðsettir í hús í Reykjavík á viðmiðunardegi kjörskrár.

Kjörskrárstofn í tölum vegna forsetakosninga 2016

Kosningavefur innanríkisráðuneytis

Vakin er athygli á því að Hagstofa Íslands gefur út endanlegar kosningaskýrslur. Tölulegar upplýsingar í kjörskrárstofni endurspegla ekki endanlega kjörskrá.


Leit

Leit