Nafngjöf

Skylt er að gefa barni nafn áður en það verður 6 mánaða gamalt.  Forsjármenn tilkynna um nafngjöf barns. Ef barn er skírt og forsjármenn hafa ekki tilkynnt nafngjöf til Þjóðskrár Íslands þá sér viðkomandi prestur eða forstöðumaður trúfélags um að senda tilkynningu um nafngjöf/skírn til Þjóðskrár Íslands. Tilkynntu nafngjöf / staðfestu nafngjöf hér og þá tekur skráningin gildi næsta virka dag.  Upplýsingar um fjölda stafbila í tölvukerfi þjóðskár eru hér.

Þau nöfn sem heimilt er að gefa barni eru á Mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd úrskurðar um önnur nöfn. Ef gefa á barni nafn sem ekki er á mannanafnaskrá skal fylla út umsókn til mannanafnanefndar. Gjald fyrir umfjöllun nefndarinnar er 3.000 kr. og skal greiðast hjá Þjóðskrá Íslands eða leggja inn á reikning stofnunarinnar. 

Ef foreldrar bans eru hvorki í hjónabandi né óvígðri sambúð við fæðingu barns þá er barn kennt til móður. Ef óskað er eftir því að kenna það til föður, þarf barnið að vera feðrað. Hægt er að ganga frá faðernisviðurkenningu hjá sýslumönnum (fæðingarvottorð þarf að hafa meðferðis frá Þjóðskrá Íslands) eða með því að fylla út eyðublað á vef Þjóðskrár Íslands. Einnig er barn feðrað ef foreldrar skrá sig í sambúð eða gifta sig eftir fæðingu þess. Kenninafni barns er síðan breytt til samræmis við skírnar- eða nafngjafarskýrslur.

Nafnbreyting

Þjóðskrá Íslands getur við ýmsar aðstæður leyft breytingu á eiginnafni, millinafni og/eða kenninafni ef skilyrði mannanafnalaga eru uppfyllt. Nafnbreytingar má hver maður aðeins gera einu sinni nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Ef breyta á nafni barns þá þarf ávallt samþykki beggja forsjármanna og ef barnið er 12 ára eða eldra þarf það einnig að samþykkja nafnbreytinguna.
Nafnbreytingar eru gjaldskyldar ef:

  1. Verið er að fella niður eða taka upp eiginnafni, breyta röð eiginnafna.
  2. Taka á  upp eða fella niður millinafn sem er á mannanafnaskrá, taka á upp eiginnafn foreldris í eignarfalli sem millinafn eða taka á upp sérstakt millinafn sem ekki er ættarnafn. 
  3. Kenna á feðrað barn við stjúpforeldri. 
  4. Kenna á fósturbarn í varanlegu fóstri til fósturforeldris.
  5. Þú ert íslenskur ríkisborgari sem varð að breyta nafni sínu við upptöku íslensks ríkisfangs þá er þér og niðjum þínum heimilt að taka aftur upp þau nafn/nöfn sem felld voru niður.

Gjald vegna ofangreindra nafnbreytinga er kr. 6.600.

Íslenskur ríkisborgari má einungis taka upp ættarnafn maka sem millinafn.

Íslendingar búsettir erlendis þurfa að sækja um nafnbreytingu í sínu lögheimilislandi og senda Þjóðskrá staðfestingu á að nafnbreyting hafi átt sér stað í lögheimilislandinu.

Algengustu nöfn í þjóðskrá
Meginreglur um mannanöfn  

Eyðublöð vegna nafngjafar og breytinga á mannanöfnun


Leit

Leit