Lenging nafnasvæðis

Nú er hægt að skrá fullt nafn í þjóðskrá án tillits til lengdar. Þjóðskrá Íslands hefur því ráðist í það viðmikla verkefni að leiðrétta og staðfesta nöfn allra sem skráðir eru í þjóðskrá. Nöfn eru staðfest og leiðrétt ef þess þarf samhliða útgáfu vegabréfa, nafnskírteina og vottorða. Einnig getur fólk kannað hvort búið er að staðfesta fullt nafn þess með því að skrá sig inn á „Mínar síður“ á Ísland.is. Hafi fullt nafn ekki verið staðfest og leiðrétt ef þess þarf, þá er unnt að óska eftir því að svo sé gert.

Fullt nafn verður skráð án takmörkunar á fjölda stafa og því skipt í eiginnafn, millinafn og kenninafn.  Að auki er skráð svokallað birtingarnafn sem er 44 stafir og verður miðlað í framtíðinni, ennfremur er skráð stytt nafn sem er 31 stafur og er það nafn sem er miðlað í dag. Þegar átt er við miðlun þá er vísað til dreifingar á þjóðskrá til viðskiptavina og þess nafns sem kemur upp við uppflettingu í skránni, t.d. í heimabönkum, hjá læknum, hjá sveitarfélögum o.s.frv. Birtingarnafn endurspeglar öllu jöfnu fullt nafn manns, en er þó takmarkað við 44 stafi. Skráning á fullu nafni í þjóðskrá er tímafrekt verkefni þar sem ekki er hægt að fullyrða um fullt nafn einstaklinga án staðfestingar á grundvelli upprunagagna, t.d. skírnarskýrslur og manntalsgögn. Ef misræmi er á milli upprunagagna og þess nafns sem skráð er í þjóðskrá þarf að tryggja vandaða stjórnsýslumeðferð, en ekki liggja fyrir upplýsingar um hver fjöldi slíkra mála er. Stefnt er að miðlun á lengra nafnasvæði fyrir lok árs 2015 og þá til þeirra notenda þjóðskrár sem geta nýtt lengra nafnasvæði.

Gert er ráð fyrir að Í árslok 2014 verði 20% íslenskra ríkisborgara með lögheimili á Íslandi komnir með staðfest fullt nafn og áætlað er að meginþorri Íslendinga verði skráðir með staðfest fullt nafn fyrir lok ársins 2017.

Framkvæmd

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu margir eru ekki skráðir með fullt eða rétt nafn í þjóðskrá. Dæmi eru um að einstaklingar hafi aldrei notað fullt nafn sitt í samskiptum við hið opinbera né í einkalífinu og viti jafnvel ekki hvert fullt nafn þeirra er. Einnig getur það valdið misskilningi að fjölmargir hafa fengið breytta nafnritun á grundvelli 20. gr. mannanafnalaganna, t.d. fellt út eiginnafn eða millinafn í nafnritun án þess að um nafnbreytingu sé um að ræða.

Til þess að staðfesta fullt nafn þá þarf ávallt að fara í upprunagögn, þ.e. skírnarskýrslur, fæðingarvottorð, tilkynningar um nafngjöf og jafnvel manntalsgögn.  Þjóðskrá Íslands gefur út skilríki og vottorð þar sem fullt nafn, óháð nafnritun og birtingu í þjóðskrá, á ávallt að koma fram, t.d. vegabréf, nafnskírteini, fæðingarvottorð, hjónavígsluvottorð og fleira.  Frá og með 1. nóvember 2013 hafa nöfn verið staðfest/leiðrétt samhliða útgáfu skilríkja og vottorða.  Sé misræmi á milli þess nafns sem hingað til hefur verið miðlað og fulls nafns er ávallt haft samband við viðkomandi.

Miðlun

Fullt nafn einstaklings verður til þess að byrja með einungis aðgengilegt honum einum á „Mínum síðum“ á Ísland.is þ.e. fullt nafn mun ekki koma fram ef einstaklingi er flett upp í kerfum, t.d. hjá öðrum stjórnvöldum eða öðrum  sem hafa aðgang að þjóðskrá í gegnum sín kerfi.  Miðlun á birtingarnafni (44 stafir) til notenda þjóðskrár verður ekki að raunveruleika fyrr en náðst hefur árangur í að leiðrétta nöfn í þjóðskrá. Auk þess þurfa stjórnvöld og aðrir sem nota þjóðskrána að gera breytingar á eigin kerfum til að geta tekið á móti fleiri og stærri nafnasvæðum en nú er miðlað.

Orðskýringar

Miðlað nafn: Nafn sem er nú miðlað til notenda þjóðskrár, t.d. nafn sem birtist í heimabanka, hjá læknum o.s.frv.  Nafnritunin er takmörkuð við 31 staf, að bilum meðtöldum.  Í framtíðinni verður miðlað nafn lagt af með öllu og þess í stað kemur birtingarnafn sem verður 44 stafir auk bila.

Fullt nafn: Samsett úr eiginnafni/nöfnum, millinafni og kenninafn/kenninöfnum. Engin takmörkun á fjölda stafa. Nafn er staðfest sem fullt nafn þegar búið er að sannreyna hvert fullt nafn viðkomandi er í raun og veru.  Til þess að sannreyna fullt nafn , er farið í þau gögn sem lágu til grundvallar nafngjafar, t.d. skírnarskýrslur, tilkynningar um nafngjafir o.s.frv.

  • Eiginnafn/nöfn (Hér er átt við fornafn, eitt eða fleiri)
  • Millinöfn (Millinöfn eru eins og ættarnöfn að því leyti að bæði karlar og konur geta borið sama nafnið. Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki notuð sem millinöfn. Millinöfn fallbeygjast ekki.)
  • Kenninafn/nöfn (Hér er átt við eftirnafn, eitt eða fleiri)

Birtingarnafn: Nafnasvæði sem verður í framtíðinni miðlað til notenda þjóðskrár og verður sýnilegt t.d. í uppflettingu í heimabönkum, hjá læknum o.s.frv.  Birtingarnafn endurspeglar að öllu jöfnu fullt nafn, en er þó takmarkað við 44 stafi að bilum meðtöldum. Ekki er nauðsynlegt að miðla fullu nafni óski fólk ekki eftir því sbr. heimild í 20. gr. mannanafnalaga nr. 45/1996. Fullt nafn mun þó birtast í vegabréfi, nafnskírteini og vottorðum útgefnum af Þjóðskrá Íslands.

Spurt og svarað um lengingu nafnasvæðis 


Leit

Leit