Nafnritun í þjóðskrá

Fullt nafn einstaklinga er ávallt skráð í þjóðskrá við nýskráningu nafns í þjóðskrá  og eru engin takmörk hversu langt nafn getur verið. Fullt nafn einstaklings er samsett úr eiginnafni/nöfnum, millinafni ef við á og kenninafni/nöfnum. Jafnframt er ávallt skráð birtingarnafn sem er takmarkað við 44 stafbil og er það nafn sem er miðlað áfram til endanotenda þjóðskrár og er því það nafn sem opinberir aðilar og einkaaðilar eiga að geta séð í sínum kerfum. Fullt nafn er hins vegar sett í vegabréf, nafnskírteini, fæðingarvottorð og önnur vottorð útgefin af Þjóðskrá Íslands. Þar sem notendur þjóðskrár hafa til 1. janúar 2018 til að aðlaga kerfi sín að 44 stafbilum þá er ennþá nauðsynlegt að skrá og miðla nafni sem eingöngu inniheldur 31 stafbil (stytt nafn). 

Rökin fyrir birtingarnafni eru m.a. að samræmi sé í miðlun á nafni einstaklings þ.e. að miðlarar og endanotendur stytti ekki nöfn í eigin upplýsingarkerfum með mismunandi hætti í tilvikum þar sem nafn er of langt   eða t.d. þegar birta á nafn t.d. á skilríkjum, bréfum, greiðslukortum o.s.frv. Sjaldgæft er að nöfn einstaklinga séu lengri en 44 stafbil í dag enda takmarkað hversu mörg nöfn einstaklingar geta borið samkvæmt núgildandi lögum um mannanöfn. Sambærilegt fyrirkomulag er t.d. í Noregi þar sem skráð er „forkort navn“ í tilvikum þar sem nafn er umfram 25 stafbil. 

Sé þörf á að stytta nafn vegna skráningar á birtingarnafni og/eða styttu nafni sbr. ofangreint þá er slíkt gert að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðila og í samræmi við reglur nr. 1025/2011 um skráningu nafna um skráningu nafna.þegar ekki er unnt að skrá nafn manns að fullu í þjóðskrá og ekki næst samkomulag um hvernig með skuli fara. Heimilt er að stytta nafn í t.d. Guðmundsd. og Jóns. ef nafn er umfram 31 stafbil þ.e. í því svæði takmarkast við 31 stafbil. 

Fram til ársins 1986 voru stafbil fyrir nöfn einungis 23 bil og fram til nóvember 2013 var að hámarki skráð 31 stafbil. Það er því hugsanlegt að nöfn einstaklinga séu ekki fullskráð í Þjóðskrá þótt það sé mögulegt. Hægt er að óska eftir breytingu á nafnritun vegna þessa. Frekari upplýsingar um nafnasvæði í þjóðskrá

Eyðublöð vegna nafngjafar og breytinga á mannanöfnun 

Nafnritun í þjóðskrá – erlend staftákn og stafmerki

Erlendir bókstafir eru ekki skráðir í þjóðskrá, hvorki nafn né heiti á fæðingarstað. Til erlendra staftákna teljast öll staftákn sem ekki eru í íslenska stafrófinu sbr. 4 kafla ÍST 130:2004 og íslenskt stafróf.
Íslenskt stafróf:  a, á, b, c, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, q, r, s, t, u, ú, v, w, x, y, ý, z, þ, æ, ö

Í þessu felst jafnframt að stafmerki (diacritical Marks) sem tilheyra ekki íslenska stafrófinu eru ekki skráð í þjóðskrá hvort sem heldur er í nafnasvæði eða fæðingastað. Stafmerki eru t.d. yfirsett (å ä ô Ť à), undirsett (ḙ Ļ ţ) og (hliðsett ʼn Ľ ť) og fleiri en eitt merki geta fylgt tilteknum staf, t.d. yfir- og undirsett merki í senn (ặ). Stafir geta verið strikaðir (Ł Ŧ) og strípaðir (ı) og til eru staflímingar (ij oe). (Heimild: Stafróf og stafrófsröð. (Apríl 2011). Árnastofnun Magnússonar).
Skráning nafna og staða sem innihalda stafi og stafmerki sem ekki eru í íslenska stafrófinu byggir á umritunarreglum í samræmi við staðlana Latin-1(ISO/IEC JTC1 8859-1) og ICAO Doc.9303 Part Machine Readable Passports, Volume 1, Appendix 9 to Section IV (A). Dæmi: Å er ritað AA, Ä er ritað AE og Œ er ritað OE. Undantekning frá notkun áðurnefnda staðla við umritun er danskt Ø en það er umritað í Ö í stað O.

Ávallt hefur verið lögð áhersla á að skrá einungis stafi í íslenska stafrófinu í þjóðskrárkerfið. Hins vegar eru nokkur dæmi um að vikið hafi verið frá þeirri meginreglu frá því að skráin var tölvuvædd árið 1986 og finnast því nokkur stafmerki í skránni sem ekki eru í íslenska stafrófinu. Slík frávik eru þó afar fá miðað við fjölda nafnafærsla í þjóðskrárkerfinu.  Núverandi verklagsreglur heimila ekki frávik frá ofangreindum reglum. Þjóðskrárkerfið styður ekki við aðrar stafatöflur en íslenskar þ.e. ekki eru til skilgreindar færslur fyrir erlend tákn þannig að hvert þeirra eigi einkvæma tölu (sæti) og heiti. Skilgreindur vörpunarstaðall þ.e. hvernig túlka eigi erlend stafatákn og varpa þeim í stafatöflu þannig að röðun og endurheimt verði rétt eða skilvirk er ekki til staðar.


Leit

Leit