Hvað er fullt nafn?

Fullt nafn er það nafn sem tilkynnt hefur verið til Þjóðskrár Íslands og er skráð í þjóðskrá, hvort heldur sem er í gögnum (skírnarskýrslum eða nafngjafaeyðublöðum) eða í tölvukerfi. Fullt nafn sem hefur verið stytt í þjóðskrá vegna takmörkunar á fjölda stafbila telst ekki fullt nafn í þeim skilningi, né nöfn sem hafa verið stytt á grundvelli 20 gr. mannanafnalaganna.

Af hverju er nafni mínu ekki "skipt upp"?

Ekki er búið að staðfesta nafn þitt, sjá svar við spurningunni „Hvernig staðfestir Þjóðskrá Íslands fullt nafn“ og „Hvað þýðir staðfest nafn“.

Af hverju sé ég ekki fullt nafn mitt í heimabanka mínum?

Miðlun á fullu nafni er ekki hafin og því er fullt nafn þitt, þ.e. sé það umfram 31 stafbil, einungis aðgengilegt á „Mínum síðum“ á Ísland.is.

Hvernig staðfestir Þjóðskrá Íslands fullt nafn?

Staðfesting er gerð með skoðun á upprunagögnum, t.d. prestaskýrslum, skírnarskírslum, tilkynningum um nafngjafir, beiðnum um nafnbreytingu og fleiru.

Af hverju hefur fullt nafn ekki verið skráð í tölvukerfi þjóðskrár?

Ástæðurnar eru nokkrar.  Í tilvikum fólks sem fætt er eftir 1986 þ.e. með tilkomu rafrænnar þjóðskrár er ástæðan fyrst og fremst takmörkun tölvukerfisins.  Fram til 1. janúar 1987 voru stafbil 23 en þá var þeim fjölgað í 31 stafbil án þess að tekin væri afstaða til þess hvort skráð væri rétt nafn eða ekki.

Í tilviki fólks sem fætt er fyrir 1952 þá byggir skráningin í tölvukerfi þjóðskrár fyrst og fremst á manntalsgögnum sem voru lesin af gataspjöldum inn í kerfið.  Nöfn  í manntalsgögnum eru yfirleitt þau nöfn sem einstaklingar og/eða foreldrar þeirra gáfu upp þegar manntalið fór fram og voru ekki endilega í samræmi við það nafn sem tilkynnt var með formlegum hætti til þjóðskrár eða skráð í kirkjubækur.

Ég vil ekki að fullt nafn mitt sé skráð í þjóðskrá, hvað get ég gert?

Þjóðskrá Íslands ber að skrá fullt nafn þeirra sem skráðir eru í þjóðskrá. Ef þú vilt ekki að fullu nafni verði miðlað í 44 stafbila kerfi þá þarftu að senda inn beiðni um breytta nafnritun í þjóðskrá eða óska eftir nafnbreytingu til þess að breyta fulla nafni þínu og birtingarnafni (44 stafbil).

Af hverju er fullu nafni ekki miðlað nú þegar?

Fram til þessa hefur ekki verið farið í það verkefni að miðla fullu nafni manns þar sem mikil vinna liggur að baki því að staðfesta hvert fullt nafn manns er. Sú vinna er nú hafin og verið að safna gögnum. Einnig mun þurfa að aðlaga tölvukerfi notenda þjóðskrár að breytingunni og má reikna með að það taki einhvern tíma líka.

Hvað þýðir staðfest nafn?

Staðfest fullt nafn felur í sér að búið er að fara í upprunagögn, þ.e. öll fyrirliggjandi gögn, og sannreyna hvert fullt nafn er. Nafn er staðfest sem fullt nafn þegar það er skráð í samræmi við fyrirliggjandi gögn.

Af hverju er birtingarnafn og af hverju er það takmarkað við 44 stafbil?

Ástæðan fyrir birtingarnafni er einkum tvíþætt.  Í fyrsta lagi þá er þörf fyrir að nafn rúmist á umslög, skjöl og í tölvukerfi notenda þjóðskrár. Í öðru lagi hafa einstaklingar fengið heimild til þess að fella út nafn/nöfn á grundvelli 20. gr. mannanafnalagi, sem telst ekki til nafnbreytingar, en í slíkum tilfellum er fullt nafn og birtingarnafn ekki hið sama. 44 stafbil þótt hæfileg lengd á nafni t.d. miðað við stærð umslaga.

Af hverju er millinafn mitt skráð sem eiginnafn?

Nafnið sem þú hefur álitið vera millinafn er í raun eiginnafn. Meginreglur um mannanöfn.

Af hverju þarf að staðfesta fullt nafn - var ekki nóg að lengja nafnasvæðið?

Þjóðskrá Íslands ber að halda skrá um fullt nafn óháð fjölda stafbila. Mikilvægt er að leiðrétta rangar skráningar á nafni  í tölvukerfi þjóðskrár og auka þar með gæði skráarinnar.  Þjóðskrá Íslands ber jafnframt að gefa út skilríki, þ.e. vegabréf, nafnskírteini og ýmis vottorð þar sem fullt nafn á  að koma fram. Til þess að unnt sé að tryggja að rétt nafn sé skráð í tölvukerfi þjóðskrár þá þarf að að yfirfara hvert og eitt nafn, þ.e. nafn á bak við hverja útgefna kennitölu.

Hvað með fullt nafn látinna?

Mikilvægt er að afmarka umfang verkefnisins og því tekur það eingöngu til leiðréttinga á nöfnum núlifandi einstaklinga.

Hvaða reglur gilda um styttingu nafna sem eru lengri en 31 og 44 stafbil?

Sjá reglur sem gilda um styttingu nafna sem eru lengri en 31 og 44.


Leit

Leit