Sjálfvirk landamærahlið

Um sjálfvirk landamærahlið

Öll íslensk vegabréf eru prófuð áður en þau eru afhent handhafa. Meðal annars er prófað að lesa bæði mynd og fingrafar úr örgjörvanum í samræmi við staðla. Örgjörvinn og gögnin í honum eru því tæknilega í lagi og fullu gildi þegar vegabréfið er afhent.

Þeir sem ferðast út fyrir Schengensvæðið eiga stundum kost á að fara gegnum sjálfvirk landamærahlið. Það er margt sem þarf að ganga upp til að ferðalangar komist gegnum slík hlið og margt sem getur farið þar úrskeiðis. Þjóðskrá getur því aldrei tryggt að allir íslenskir ferðalangar komist gegnum öll sjálfvirk landamærahlið. Þeir sem komast ekki í gegnum sjálfvirkt hlið skulu fara til landamæravarðar í handvirk hlið.

Helstu vandamál í sjálfvirkum hliðum 

Þeir sem hafa áhuga geta prófað að lesa örgjörvann í vegabréfinu sínu með einföldu appi á síma. Fyrir Android er hægt að nota app sem heitir „ReadID Me“. Fyrir iPhone er hægt að nota app sem heitir Document reader“ frá Regula. Ef það virkar er örgjörvinn og gögnin í honum í lagi. Þessi öpp eru hins vegar ekki eins fullkomin og sjálfvirku landamærahliðin og gætu því hafnað vegabréfi þó örgjörvinn sé í lagi.

  1. Þótt vegabréfin og gögnin í örgjörvanum séu í fullkomnu lagi þarf að taka mynd af ferðalanginum og bera saman við myndina í örgjörvanum. Það þarf ekki mikið til að kerfið hafni því að myndin í örgjörvanum sé af ferðalanginum, t.d. gleraugu, þreytu, skegg o.fl.
  2. Örgjörvinn í vegabréfinu er viðkvæmur fyrir hnjaski og getur því orðið óvirkur. Ef það gerist kemst vegabréfshafinn ekki gegnum sjálfvirkt landamærahlið.
  3. Gögnin í örgjörvanum eru undirrituð með rafrænni undirskrift Þjóðskrár. Sjálfvirku landamærahliðin ganga úr skugga um að þessari undirskrift sé treyst. Traustvottorði Þjóðskrár hefur verið miðlað til stjórnvalda um allan heim, en þó er ekki hægt að tryggja að þau setji það öll inn í sín sjálfvirku landamærahlið. Ríki sem ekki hafa gert það hafna öllum íslenskum vegabréfum í sjálfvirkum landamærahliðum.
  4. Ýmsar tæknilegar villur geta komið upp í sjálfvirkum landamærahliðum, oft vegna mismunandi túlkunar og útfærslum á stöðlum. Þjóðskrá á í samstarfi við erlend stjórnvöld til að fækka slíkum tilvikum.

Þeir sem lenda ítrekað í vandræðum með vegabréf sín í sjálfvirkum hliðum geta keypt sér ný vegabréf, en ríkið getur ekki tekið á sig kostnað vegna þess.