Jafnréttisáætlun

2024-2027

Markmið Þjóðskrár Íslands með gerð jafnréttisáætlunar er að jafna stöðu kynjanna hjá stofnuninni í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög um jafnan rétt kynjanna á vinnumarkaði nr. 86/2018. Í þessu felst að stofnunin mun tryggja að karlar, konur og fólk með hlutlausa stöðu kyns njóti sömu tækifæra til þjálfunar og frama og að starfsfólk sé metið að verðleikum óháð kyni. Jafnframt mun stofnunin markvisst vinna að því að störf innan hennar séu ekki flokkuð sem sérstök kvenna- eða karlastörf og tryggja að launaákvörðun miðist við að öll kyn njóti sömu kjara fyrir jafn verðmæt störf.

Jafnréttisáætlunin þessi skal taka gildi þann 1. júlí 2024 og skal endurskoðuð á þriggja ára fresti.

Jafnréttisnefnd

Forstjóri/mannauðsstjóri skipar tvær konur og tvo karla í jafnréttisnefnd stofnunarinnar. Nefndina skipa mannauðsstjóri og fjórir starfsmenn. Tveir karlar og tvær konur.

Jafnlaunastefna

Þjóðskrá Íslands hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt launastaðlinum ÍST 85/2012. Jafnlaunakerfið og Jafnlaunastefna þessi nær yfir alla stofnunina og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Þjóðskrár Íslands þau réttindi sem því fylgir auk þess sem jafnlaunakerfið skal ávallt standast lagalegar kröfur. Skal Þjóðskrá Íslands sjá til þess að starfsfólk sem starfar hjá stofnuninni fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir störf sem teljast sambærileg og jafn verðmæt.

Forsendur launaákvarðana eru í samræmi við launastefnu, kjara- og stofnanasamninga. Ákvörðun um kjör starfsmanna skal byggð á málefnalegum sjónarmiðum sem varða starfið og hæfniskröfur til þess. Þessi sjónarmið gilda hvort sem ákvörðun varðar laun, hlunnindi, lífeyris-, orlofs-, veikindaréttindi eða réttindi sem metin verða til fjár. Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo. Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og einstaklingar fái greitt fyrir störf sín út frá verðmæti þeirra óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.

Þjóðskrá Íslands skuldbindur sig til að:

  • Viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og reglugerð 1030/2017 sem innleidd var 13. september 2019.
  • Setja fram jafnlaunamarkmið og rýna þau.
  • Fylgja viðeigandi lagalegum kröfum og öðrum kröfum sem Þjóðskrá Íslands undirgengst varðandi meginregluna um að greiða skulu öllum kynjum jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
  • Framkvæma innri úttekt árlega og rýni stjórnenda.
  • Bregðast við frábrigðum með því að sinna stöðugum umbótum og eftirliti.
  • Kynna jafnlaunastefnuna fyrir starfsfólki og hafa hana aðgengilega almenningi.

Markmið: Að ekki sé óútskýrður launamunur milli kynja

Aðgerð: Árleg launagreining fyrir 1. september ár hvert.

Ábyrgð: Mannauðsdeild bera ábyrgð á framkvæmd þessarar greiningar.

Tímarammi: Fer fram árlega.

Kynning: Stefnan er aðgengileg öllum starfsmönnum á innra neti stofnunarinnar

Stöðuveitingar og störf

Þegar Þjóðskrá íslands ræður í ný störf skal það haft að leiðarljósi að störf skuli standa öllum kynjum jafnt til boða og auglýsingar bera með sér að kyn skipti ekki máli. Þó getur stofnunin hvatt ákveðin kyn öðrum fremur til að sækja um í þeim tilgangi að jafna hlutföll kynjanna í ákveðnum störfum. Ef óskað er eftir sérstöku kyni vegna sértækra aðgerða eða hlutlægra þátta sem tengjast starfinu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 skal tilgreina það sérstaklega í starfsauglýsingu. Hafa skal í huga við ráðningar að jafnréttissjónarmið séu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið.

Við ráðningu er óheimilt að mismuna kynjum á grundvelli fjölskyldustöðu eða annarra þátta þar sem ætla má að kynbundnir einkahagir hafi áhrif.

Starfsþróun og endurmenntun

Gæta skal þess að mismuna ekki starfsfólki eftir kyni við úthlutun verkefna eða tilfærslu í starfi. Það sama á við þegar kemur að því axla ábyrgð og nýta möguleg tækifæri sem almenn starfsþróun hefur upp á að bjóða. Öll kyn skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar, hafa þannig tækifæri til þess að sækja námskeið og fræðslu til þess að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum.

Markmið:

  • Öll kyn skulu eiga sömu möguleika til þess að afla sér þjálfunar og endurmenntunar.
  • Við tilfærslur milli starfa og úthlutun verkefna skal leitast við að velja hæfasta einstaklinginn til starfsins. Taka skal tillit til jafnréttissjónarmiða sé um jafn hæfa einstaklinga að ræða.

Aðgerð:

  • Árleg greining á þátttöku eftir kynjum í sambærilegum störfum í skipulagðri endurmenntun og í starfs- og vinnuhópum sem skal fara fram fyrir 1. september ár hvert.
  • Við árlega greinargerð skal taka saman hlut kynja í stjórnunar- og áhrifastöðum í þeim tilgangi að stuðla að jöfnum tækifærum til framgangs í starfi. Gott er að hafa þetta í huga þegar um er að ræða nýráðningar eða tilfærslur í störfum innan ÞÍ. (Ef í ljós kemur að á annað kynið hallar ber að gera grein fyrir því í uppfærðri jafnréttisáætlun og tilgreina hvernig skuli leiðrétta slíkan halla).

Ábyrgð: Mannauðsstjóri og sviðsstjórar.

Kynning: Árleg kynning um stöðu jafnréttismála, á starfsdegi eða almennum starfsmannafundi. Boðaðir eru allir starfsmenn.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Þjóðskrá Íslands skal gera starfsfólki sínu kleift að samræma starfsskyldur og fjölskyldulíf óháð kyni. Þetta er meðal annars gert með því að bjóða upp á sveigjanleika í vinnutilhögun og vinnutíma þar sem því verður við komið. Stofnunin gengur út frá því að jafnt feður sem mæður taki það fæðingarorlof sem þau eiga rétt á og taki til jafns þátt í að sinna veikum börnum.

Markmið: Starfsfólki er boðið upp á sveigjanlega vinnutilhögun og vinnutíma þar sem möguleiki er á.

Aðgerð: Viðhalda núverandi fjölskyldustefnu þá sértaklega með tilliti til sveigjanlegs vinnutíma.

Ábyrgð: Forstjóri, mannauðsstjóri og aðrir stjórnendur

Kynning: Árleg kynning á starfsdegi eða almennum starfsmannafundi. Boðaðir eru allir starfsmenn.

Einelti og kynferðisleg áreitni

Kynbundin og kynferðisleg áreitni, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er með öllu óheimilt af hálfu starfsfólks Þjóðskrár Íslands. Slíkt er hvorki liðið í samskiptum starfsfólks innbyrðis né í samskiptum starfmanna við viðskiptavini stofnunarinnar.

Markmið:

  • Að skapa öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi sem styður við heilbrigð og eðlileg samskipti byggð á virðingu.
  • Koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum, meðal annars með forvörnum.
  • Skapa skýran farveg vegna mála sem upp koma um málsmeðferð.

Aðgerðir:

  • Að verklagsreglur og aðgerðaráætlunum einelti og kynferðislega áreitni séu rýndar reglulega.
  • Fræðsla til starfsmanna og jafnréttisnefndar.

Ábyrgð: Mannauðsstjóri og jafnréttisnefnd.

Kynning: Nýliðakynning sem fer fram reglulega, á innra neti.

Meginmarkmið jafnréttisáætlunar fyrir árið 2024

  • Viðhalda Jafnlaunavottun.
  • Að jafnréttisáætlun skili tilætluðum árangri.

Ábyrgð: Mannauðsstjóri og jafnréttisnefnd

Samþykkt, 1. júlí 2024