Er hægt að framlengja gildistíma vegabréfs?

Þjóðskrá Íslands vill benda á að samkvæmt reglum Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) þá er gerð sú krafa að vegabréf þurfi að vera véllesanlegt til að teljast gilt ferðaskilríki. Þessi krafa er ófrávíkjanleg frá 24. nóvember 2015. Þau vegabréf sem íslenska ríkið gefur út uppfylla kröfur um að vera gild ferðaskilríki. Ef vegabréf hefur verið framlengt telst það ekki lengur véllesanlegt vegabréf og því ekki gilt sem ferðaskilríki.    

Eftir 24. nóvember 2015 er ekki hægt að ábyrgjast hvernig litið verður á framlengt vegabréf við landamæraeftirlit erlendis og er það alfarið á ábyrgð einstaklings að ferðast með slíkt vegabréf.

Neyðarvegabréf eru ekki véllesanleg en eru heimil samkvæmt reglum Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) enda skulu þau gefin út til að aðstoða íslenska ríkisborgara í neyð einna helst til að komast heim eða á næstu umsóknarstöð vegabréfa.

Hvað varð um harðplastsíðuna í vegabréfinu?

 • Frá og með 25. júní 2013 er örgjörvinn í baksíðu almennra vegabréfa og harðplastsíðan hverfur.

Þarf að sækja um nýtt vegabréf þegar hafin verður útgáfa nýrra vegabréfa ?

 • Nei, - öll eldri vegabréf halda gildi sínu að fullu.
 • Ekki er stefnt að neins konar innköllun á núgildandi vegabréfum.

Hvaða kröfur mæta íslenskum farþegum varðandi vegabréf þegar þeir ferðast til Bandaríkjanna ?

 • Ekki er hægt að ferðast til Bandaríkjanna án áritunar á íslensku neyðarvegabréfi.
 • Öll gild íslensk vegabréf sem gefin voru út eftir 1. júní 1999 munu gilda áfram til þess að ferðast án áritunar til Bandaríkjanna.
 • 12. jan 2009 tóku gildi nýjar reglur um þá sem ferðast án vegabréfsáritunar til Bandaríkjanna. Nú þurfa þeir að skrá vegabréfsnúmer o.fl. upplýsingar á vef landamæraeftirlitsins a.m.k. 3 sólarhringum fyrir brottför. Þeim sem þurfa að endurnýja vegabréf og eru á leið til Bandaríkjanna er því bent á að sækja um vegabréfið a.m.k. 15 virkum dögum fyrir brottför, svo þeir verði komnir tímanlega með vegabréfanúmerið.

Hvað er vegabréf með örgjörva, - rafrænt vegabréf ?

 • Vegabréf gefin út eftir 23. maí 2006 eru með örflögu, sem geymir sömu upplýsingar og eru í véllesanlegri rönd vegabréfsins, ásamt stafrænni mynd og rithandarsýnishorni. Vegabréf gefin út eftir 28. júní 2009 geyma jafnframt í örflögunni fingraför. Þau eru vernduð í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla, þannig að eingöngu er hægt að nota þau til að bera saman við fingraför sem tekin eru af handhafa við landamæravörslu og til að ganga úr skugga um að vegabréfið sé ófalsað. Engar aðrar upplýsingar eru varðveittar á örflögunni en fingraför og þær sem sjást með berum augum á persónusíðu vegabréfsins.

Af hverju vegabréf með örgjörva og fingraförum ?

 • Alþjóða flugmálastofnunin hefur um árabil unnið að þróun rafrænna vegabréfa með örgjörva. Nú hafa mál þróast þannig að alþjóðasamfélagið krefst vegabréfa með örgjörva og til þess að tryggja íslenskum ríkisborgurum viðunandi ferðafrelsi var nauðsynlegt að hefja útgáfu slíkra vegabréfa. Schengenríkin samþykktu á vettvangi ESB að hefja útgáfu vegabréfa með örgjörva eigi síðar en 28. ágúst 2006, og með fingraförum í þeim örgjörva eigi síðar en 28. júní 2009. Þessar samþykktir eru skuldbindandi fyrir Ísland vegna Schengen-samkomulagsins.

Hver er afgreiðslutími vegabréfa ?

 • Frá og með 13. janúar 2017 verður afgreiðslutími vegabréfa lengdur úr 9 virkum dögum í 17 virka daga, þar er meðtalinn sendingartími á umsóknarstað eða til umsækjanda (innanlands). Boðið er uppá að sækja vegabréf í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands, eftir hádegi á 14. virka degi. Ástæða lengingar afgreiðslutímans er að tafir hafa orðið á sendingu vegabréfabóka sem áttu að afhendast fyrr í janúarmánuði frá erlendum framleiðanda. Ath. Ef frídagar eru á tímabilinu þá lengist tíminn sem þeim nemur.
 • Þjóðskrá Íslands leitar allra leiða að fá hluta sendingarinnar fyrr til að draga úr þeim óþægindum sem þetta kann að valda almenningi og mun senda út nýja tilkynningu um leið og aðstæður breytast.
 • Heimilt er að veita forgang til skyndiútgáfu vegabréfs innan almenns afgreiðslutíma, en athygli umsækjanda skal vakin á því að slík skyndiútgáfa kostar tvöfalt meira en venjuleg afgreiðsla.

Hvernig eru vegabréf afhent umsækjendum ?

 • Vegabréf eru send í pósti til umsækjanda, á þann stað sem hann tiltekur, á skrifstofu sýslumannsembættis eða sótt í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands, Borgartún 21.

Hver er gildistími vegabréfa ?

 • Frá 1. mars 2013 er gildistími vegabréfa tíu ár frá útgáfudegi, en fimm ár fyrir börn yngri en 18 ára. 

Hvað verður um vegabréf þeirra sem fá annan ríkisborgararétt ?

 • Íslensk lög heimila tvöfalt ríkisfang og þeir sem öðlast ríkisborgararétt í öðru ríki sem einnig heimilar tvöfalt ríkisfang halda íslenskum ríkisborgararétti og þar með vegabréfi sínu. Einstaklingar sem hins vegar vilja öðlast ríkisfang í ríki sem ekki heimilar tvöfalt ríkisfang þurfa að óska eftir að verða leystir undan íslenskum ríkisborgararétti og þegar sú lausn hefur tekið gildi (eigi fyrr en annað ríkisfang er fengið) verður vegabréf hans ógilt og því ber að skila.

Hvenær skal synja um útgáfu vegabréfs ?

 • Þegar umsækjandi er eftirlýstur af lögreglu, gefin hefur verið út handtökuskipun á hann eða lagt á hann farbann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála.
 • Meðan annað vegabréf er í gildi. Bent er á að sé vegabréf að renna út er hægt að láta ógilda það á umsóknarstað. Sé vegabréf glatað eða eyðilagt er hægt að skrá það ógilt ef viðkomandi gerir fullnægjandi grein fyrir málavöxtum, en það hefur áhrif á gildi næsta vegabréfs.
 • Ef samþykki forsjármanns barns yngra en 18 ára vantar.
 • Ef samþykki lögráðamanns vantar fyrir vegabréfi fyrir einstakling sem hefur misst sjálfræði.
 • Hafi einstaklingur ekki íslenskt ríkisfang.
 • Geti umsækjandi ekki gert fullnægjandi grein fyrir sér eða veitt nauðsynlegar upplýsingar fyrir umsókn.  

Í hvaða öðrum tilvikum má synja um útgáfu vegabréfs eða takmarka gildistíma þess ?

 • Þegar fram er komin kæra á hendur umsækjanda fyrir refsivert brot sem ætla má að varði fangelsisrefsingu og hætta er talin á að hann muni reyna að komast undan refsiábyrgð með því að fara úr landi eða dveljast áfram erlendis.
 • Þegar umsækjandi hefur verið dæmdur til fangelsisrefsingar sem ekki hefur verið afplánuð eða sætt sektarrefsingu fyrir dómi eða hjá stjórnvaldi sem hvorki hefur verið greidd né sett trygging fyrir og hætta er á að hann muni reyna að komast hjá fullnustu refsingarinnar með því að fara úr landi eða dveljast áfram erlendis.
 • Hafi viðkomandi glatað vegabréfi eða ætla má að hann hafi misfarið með vegabréf má takmarka gildistíma þess.  

Þarf ég vegabréf fyrir barnið mitt þegar ég ferðast milli Norðurlandanna ?

 • Í ljósi samkomulags um norrænt vegabréfafrelsi, má líta sem svo á að vegabréf séu ekki nauðsynleg í ferðum milli Norðurlandanna og því ættu önnur persónuskilríki og gögn að duga samkvæmt því.  Hvað gögn varðar má t.d. nefna fæðingarvottorð barns.

  Hins vegar er öllum ríkjum heimilt að krefjast vegabréfa, ef sérstakar aðstæður kalla á aukið öryggiseftirlit.  Það er því eindregið mælt með því að foreldrar eða forsjármenn barna afli vegabréfa fyrir þau áður en lagt er upp í ferðir til Norðurlandanna, til að tryggja að ekki komi upp vandamál við komu og brottför, hvort heldur er hér heima eða erlendis. 

Þarf ég vegabréf til að ferðast innan Schengen svæðisins ?

 • Ekkert landamæraeftirlit er á milli Schengenríkja, en útlendingum er skylt að bera skilríki sem viðkomandi ríki viðurkennir. Vegabréf eru einu íslensku skilríkin sem eru viðurkennd, og því myndast vegabréfaskylda við að ferðast yfir innri landamæri Schengen, þó svo þar sé alla jafna engin landamæravarsla. Athygli er þó vakin á sérstöku samkomulagi Norðurlandanna (sjá spurningu hér að ofan).

Hvað verður um persónuupplýsingar mínar í vegabréfaskrá ?

 • Samkvæmt lögum heldur Þjóðskrá Íslands skrá um öll útgefin vegabréf. Vegabréfaskrá má nota á eftirtaldan hátt:

  a. Umsóknarstöðvar vegabréfa skulu kanna upplýsingar í vegabréfaskrá áður en umsókn um vegabréf er afgreidd.

  b. Þjóðskrá Íslands skal nota upplýsingar úr skránni við framleiðslu vegabréfa.

  c. Þjóðskrá Íslands og lögreglu er heimilt að nota vegabréfaskrá til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann segist vera.

  d. Þjóðskrá Íslands, lögreglu og sendiskrifstofum er heimilt að nota skrána til að birta erlendum stjórnvöldum númer glataðra og stolinna vegabréfa og segja þeim til um hvort tiltekið vegabréf sé gilt. 

Hvað verður um fingraförin mín ?

 • Fingraför í örgjörva eru vernduð í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla, þannig að eingöngu er hægt að nota þau til að bera saman við fingraför sem tekin eru af handhafa við landamæravörslu og til að ganga úr skugga um að vegabréfið sé ófalsað.

Leit

Leit