Hafa ber hugfast að neyðarvegabréf eru ekki ákjósanlegustu ferðaskilríki sem völ er á og duga engan veginn sem fullgild skilríki til langdvalar erlendis. Þau duga t.d. ekki til að ferðast til Bandaríkjanna án áritunar.

Í ársbyrjun 2009 voru hertar reglur um útgáfu neyðarvegabréfa. Nú er ekki lengur næg ástæða að hafa gleymt vegabréfinu heima eða gleymt að endurnýja það. Þeim sem eru á leið í utanlandsferð er vinsamlegast bent á að endurnýja vegabréf sín tímanlega fyrir brottför, geyma þau á vísum stað og ganga úr skugga um að þau séu meðferðis áður en lagt er af stað heiman frá.

Lögreglustjórum, íslenskum sendiskrifstofum og kjörræðismönnum, sem heyra undir íslensku utanríkisþjónustuna, er heimilt að gefa út vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf) ef brýna nauðsyn ber til. Umsækjandi um neyðarvegabréf skal leggja fram sambærileg gögn eins og þegar sótt er um almennt vegabréf, og að auki 2 ljósmyndir. Áður en neyðarvegabréf er gefið út skal starfsmaður kanna þær upplýsingar sem skráðar eru í vegabréfaskrá, með sambærilegum hætti og um almenna útgáfu væri að ræða, og ganga úr skugga um að öll skilyrði til útgáfunnar séu uppfyllt. Alla útgáfu neyðarvegabréfa skal tilkynna Þjóðskrá Íslands þegar í stað svo hægt sé að færa hana í vegabréfaskrá. Gildistími neyðarvegabréfs ræðst af þeim ástæðum sem gera útgáfu þess nauðsynlega, en skal þó aldrei vera lengri en tólf mánuðir. Neyðarvegabréfi skal skila til lögreglu við komu til landsins eða til sendiskrifstofu erlendis.

Nánari upplýsingar veitir Lögreglan á Suðurnesjum í síma 420 1820 og íslenskar sendiskrifstofur.

Vegabréf sem hafa verið framlengd teljast ekki gild ferðaskilríki frá 24. nóvember 2015

Þjóðskrá Íslands vill benda á að samkvæmt reglum Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) þá er gerð sú krafa að vegabréf þurfi að vera véllesanlegt til að teljast gilt ferðaskilríki. Þessi krafa er ófrávíkjanleg frá 24. nóvember 2015. Þau vegabréf sem íslenska ríkið gefur út uppfylla kröfur um að vera gild ferðaskilríki. Ef vegabréf hefur verið framlengt telst það ekki lengur véllesanlegt vegabréf og því ekki gilt sem ferðaskilríki.    

Eftir 24. nóvember 2015 er ekki hægt að ábyrgjast hvernig litið verður á framlengt vegabréf við landamæraeftirlit erlendis og er það alfarið á ábyrgð einstaklings að ferðast með slíkt vegabréf.

Neyðarvegabréf eru ekki véllesanleg en eru heimil samkvæmt reglum Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) enda skulu þau gefin út til að aðstoða íslenska ríkisborgara í neyð einna helst til að komast heim eða á næstu umsóknarstöð vegabréfa. 
 

Leit

Leit