Skriflegt samþykki forsjármanna

Þegar sótt er um vegabréf fyrir barn yngra en 18 ára eiga báðir forsjármenn að mæta, ásamt barni, til þess að sækja um vegabréfið. Báðir forsjármenn þurfa að skrifa undir þar til gert skjal til að samþykkja útgáfu vegabréfsins. Ef annar forsjármaður barns getur ekki mætt skal hann rita samþykki sitt á skjalið sem þarf þá vottun tveggja einstaklinga eldri en 18 ára.

Fari aðili einn með forsjá barns er undirskrift hans nægjanleg vegna umsóknar um vegabréf og staðfestir Þjóðskrá Íslands að viðkomandi fari einn með forsjánna. Til að forðast tafir í útgáfu vegabréfs er þó vakin athygli foreldra sem farið hafa einir með forsjá barns á eftirfarandi:

  • Hafi viðkomandi gengið í hjúskap fyrir 1. janúar 2013 þarf ennfremur samþykki stjúpforeldris.
  • Hafi viðkomandi skráð sig í sambúð í þjóðskrá fyrir 1. janúar 2012 þarf samþykki sambúðarforeldris.

Forsjáraðili sem fer einn með forsjá barns og gengið hefur í hjúskap eftir 1. janúar 2013 og forsjáraðili sem skráði sig í sambúð í þjóðskrá eftir 1. janúar 2012, getur einn skrifað undir umsókn um vegabréf fyrir barn nema samið hafi verið um sameiginlega forsjá með stjúpforeldri eða sambúðarforeldri sbr. 1. mgr. 29. gr.a. barnalaga nr. 76/2003, með síðari breytingum.

Heimilt er að gefa út vegabréf samkvæmt umsókn annars forsjárforeldris þegar hitt forsjárforeldrið er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna að undangenginni athugun á umræddum aðstæðum og mati á því hvort hætta sé á að barn verði fært úr landi með ólögmætum hætti.

Samþykki lögráðamanns þarf til að gefið verði út vegabréf til þess sem sviptur hefur verið sjálfræði.

Eyðublöð


Leit

Leit