Tekin skal stafræn ljósmynd af umsækjanda á umsóknarstað, svo hægt sé að bera kennsl á réttan vegabréfahafa við landamæraeftirlit síðar.  

Mynd í vegabréf skal uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • Myndin skal vera andlitsmynd, tekin þannig að andlitið snúi beint að myndavél og bæði augu sjáist.
  • Myndin skal vera jafnlýst, bakgrunnur ljósgrár, hlutlaus og án skugga.
  • Umsækjandi má ekki bera dökk gleraugu eða gleraugu með speglun.
  • Umsækjandi má ekki bera höfuðfat. Þó má heimila slíkt ef umsækjandi fer fram á það af trúarástæðum.*

Umsækjanda er heimilt að vísa á stafræna mynd frá atvinnuljósmyndara sem uppfyllir kröfur þær sem gerðar eru til gæða myndarinnar, en með samanburði við stafræna mynd sem tekin er á umsóknarstað skal þá sannreynt að sú mynd sé fullnægjandi til að bera kennsl á umsækjanda með vélrænum hætti. Ef nota á slíka mynd þarf hún að berast í tölvupósti beint frá atvinnnuljósmyndara og má ekki vera eldri en 6 mánaða gömul. Vakin er athygli á því að óheimilt er að breyta útliti umsækjanda á mynd með hvers konar tölvu- og myndvinnslu Nánar leiðbeiningar til ljósmyndara (pdf)

*Heimildin til að bera höfuðfat á mynd í vegabréfi er undanþága frá meginreglunni um að einstaklingur megi ekki bera höfuðfat á mynd í vegabréfi. Þegar einstaklingur óskar eftir undanþágu á grundvelli d-liðar 4. mgr. 10. gr. reglugerðar um vegabréf nr. 560/2009, um að fá að bera höfuðfat af trúar- eða heilsufarsástæðum, er ávallt óskað eftir rökstuðningi viðkomandi einstaklings og skal hann leggja fram staðfestingu eða útskýringu viðkomandi trúfélags á þeirri nauðsyn enda hefur Þjóðskrá Íslands ekki þekkingu á þeim mismunandi trúfélögum sem til eru og þá hvort einstaklingar beri höfuðföt í tengslum við trú sína. Með áskilnaði um staðfestingu er því ekki verið að óska eftir staðfestingu á aðild einstaklings í viðkomandi trúfélagi heldur einungis á því að það tengist viðkomandi trú að einstaklingur beri höfuðfat.
Þegar óskað er undanþágu vegna heilsufarsástæðna skal umsækjandi að sama skapi leggja fram rökstuðning og staðfestingu læknis.


Leit

Leit