Takmarkanir á útgáfu eða gildi vegabréfs

Vegabréf gildir aðeins fyrir einn einstakling.

Skriflegt samþykki forsjármanns/-manna þarf ef sótt er um vegabréf fyrir barn yngra en 18 ára.

Skriflegt samþykki lögráðamanns þarf til að gefið verði út vegabréf fyrir mann sem sviptur hefur verið sjálfræði.

Þjóðskrá Íslands getur bundið gildi vegabréfs við tiltekið svæði.

Þjóðskrá Íslands getur gefið vegabréf út með skemmri gildistíma en 5 ár hafi viðkomandi ítrekað glatað vegabréfi eða ætla má að hann hafi misfarið með vegabréf.

Þegar einstaklingur hefur að eigin ósk verið leystur undan íslenskum ríkisborgararétti og öðlast annað ríkisfang verður vegabréf hans ógilt. Sama gildir ef hann hafði erlent ríkisfang áður en hann var leystur undan því íslenska.Vegabréfinu ber að skila til næstu sendiskrifstofu eða lögreglustjóra, sem skal tilkynna Þjóðskrá Íslands um það.

Nú er umsækjandi um vegabréf eftirlýstur af lögreglu, gefin hefur verið út handtökuskipun á hendur honum eða lagt á hann farbann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála og skal þá synja um útgáfu vegabréfs.

Heimilt er að synja um útgáfu vegabréfs eða takmarka gildistíma þess þegar svo stendur á:

  1. fram er komin kæra á hendur umsækjanda fyrir refsivert brot sem ætla má að varði fangelsisrefsingu og hætta er talin á að hann muni reyna að komast undan refsiábyrgð með því að fara úr landi eða dveljast áfram erlendis eða
  2. umsækjandi hefur verið dæmdur til fangelsisrefsingar sem ekki hefur verið afplánuð eða sætt sektarrefsingu fyrir dómi eða hjá stjórnvaldi sem hvorki hefur verið greidd né sett trygging fyrir og hætta er á að hann muni reyna að komast hjá fullnustu refsingarinnar með því að fara úr landi eða dveljast áfram erlendis.

Umsóknarstöðvar skulu fletta í vegabréfaskrá til að ganga úr skugga um að ofangreindar takmarkanir séu ekki fyrir hendi.


Leit

Leit