Þjóðskrá08. júní 2016

Fasteignamat 2017

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,8% frá yfirstandandi ári og verður 6.293 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2017 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag. Fasteignamatið hækkar á 94,6% eigna en lækkar á 5,4% eigna frá fyrra ári.

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,8% frá yfirstandandi ári og verður 6.293 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2017 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag. Fasteignamatið hækkar á 94,6% eigna en lækkar á 5,4% eigna frá fyrra ári.

Fasteignamatið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2016. Það tekur gildi 31. desember 2016 og gildir fyrir árið 2017. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 1. september 2016.

Fjölbýli hækkar meira en sérbýli

Mat íbúða (128.710) á öllu landinu hækkar samtals um 8,5% frá árinu 2016 og verður samanlagt fasteignamat þeirra 4.234 milljarðar króna í fasteignamatinu 2017. Matsverð íbúða í fjölbýli hækkar meira á landinu öllu en mat íbúða í sérbýli. . 


Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 7,6%. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matið um 9,1% en um 4,1% á landsbyggðinni. Frístundahúsnæði hækkar um 6,3%.

Hækkun fasteignamats 2016 Sérbýli Fjölbýli Atvinnuhúsnæði
 Landið allt  6,2%  11,3%  7,6%
 Höfuðborgarsvæðið  6,5%  11,7%  9,1%
 Utan höfuðborgarsvæðisins  5,5%  8,6%  4,1%

 

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 8,8%. Matið á Suðurnesjum hækkar um 6,8%, það hækkar um 5,8% á Vesturlandi, 6,9% á Vestfjörðum, 0,2% á Norðurlandi vestra, 5,7% á Norðurlandi eystra, 5,6% á Austurlandi og 4,8% á Suðurlandi.

Fasteignamat utan höfuðborgarsvæðisins hækkar mest í Vopnafjarðarhreppi eða um 12,1% og um 12% í Vesturbyggð en lækkar hins vegar mest í Akrahreppi um 4,8% og á Blönduósi um 3,6%.


Hækkun á höfuðborgarsvæðinu er mest miðsvæðis

Meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 9,2%. Mikla hækkun má finna víða á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hækkar matið mest í Bústaðahverfi eða um 20,1% og um 16,9% í Fellunum og um 16,3% í Réttarholti. Mat lækkar á þremur matssvæðum, um 0,8% á Kjalarnesi, um 3,5% í Garðabæ vestan Hraunholtsbrautar og um 4,1% á Arnarnesi einnig í Garðabæ.


Breyttar aðferðir

Þjóðskrá Íslands hefur frá árinu 2009 unnið að endurskoðun á aðferðafræði fasteignamats fyrir allar tegundir eigna sem endurspeglar betur en eldri aðferðir markaðsverð fasteigna á hverjum tíma. Árið 2009 var tekin upp ný aðferðarfræði fyrir íbúðareignir og árið 2014 voru nýjar aðferðir teknar upp við mat á verslunar-, skrifstofu og léttum iðnaðareignum. Aðferðir fasteignamats fyrir sumarbústaði, hótel og gististaði verða endurskoðaðar í næsta fasteignamati sem kynnt verður í júní 2017 og mun gilda fyrir árið 2018.

 
Miðlun upplýsinga

Upplýsingum um fasteignamatið verður miðlað með sama hætti og undanfarin ár.  Eigendur fasteigna geta frá 15. júní nálgast tilkynningarseðil um mat á eignum sínum á upplýsinga- og þjónustuveitunni www.island.is. Til þess þarf rafræn skilríki eða Íslykil sem auðvelt er að sækja um sé hann ekki tiltækur. Einnig er hægt að nálgast fasteignamatið á heimasíðu Þjóðskrár, www.skra.is.   Tilkynning um fasteignamatið 2017 er því rafræn og verður ekki send út til fasteignaeigenda í hefðbundnum bréfpósti. Hins vegar geta eigendur haft samband við Þjóðskrá Íslands og óskað eftir að fá tilkynninguna senda til sín..

 

 


Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar