Skráning

 • Tilgangur skráningar í trú- eða lífsskoðunarfélög í þjóðskrá er að fá tölfræðilegar upplýsingar um fjölda einstaklinga í tilteknu trú- eða lífsskoðunarfélagi miðað við 1. desember ár hvert. Þannig er unnt að reikna út framlög ríkisins (svokölluð sóknargjöld) til félaganna. Hver einstaklingur getur  lögum samkvæmt einungis verið skráður í eitt skráð trú- eða lífsskoðunarfélag í þjóðskrá á sama tíma. Einungis er heimilt að skrá einstaklinga í trú- eða lífsskoðunarfélög sem hafa hlotið skráningu  samkvæmt lögum. Óski einstaklingur eftir því að skrá sig í trú- eða lífsskoðunarfélag sem ekki hefur verið skráð er hann skráður í ótilgreint trú- eða lífsskoðunarfélag.

  Allir einstaklingar eru skráðir í trúfélag, lífsskoðunarfélag, utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga eða í ótilgreint trú- eða lífsskoðunarfélag við nýskráningu í þjóðskrá, s.s. við  skráningu barns í þjóðskrá eða við skráningu  erlends ríkisborgara til lögheimilis hér á landi. 

  Með skráningu í trú- eða lífsskoðunarfélag í þjóðskrá felst ekki að Þjóðskrá Íslands haldi sérstakt félagatal trú- eða lífsskoðunarfélaga heldur er einungis um að ræða skráningu á því hvert sóknargjöld skuli renna samkvæmt ákvæðum laga um sóknargjöld nr. 91/1987 og lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999.

  Samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög skal einstaklingur tilkynna um inngöngu eða úrsögn úr trú- eða lífsskoðunarfélagi til þess félags sem í hlut á.

  Tilkynna þarf  sérstaklega um breytingu á skráningu á aðild að trú- eða lífsskoðunarfélagi.

 • Börn

  Sérstakar reglur gilda um hvernig staðið er að skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög: 

  Ef foreldrar barns eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns á eftirfarandi við:

  • Ef foreldrar tilheyra sama trúfélagi, lífsskoðunarfélagi eða eru bæði utan trúfélaga er barn þeirra skráð á sama hátt og foreldrar þess.
  • Ef foreldrar tilheyra ekki sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélags- eða lífsskoðunarfélags er barnið skráð í ótilgreint trúfélag. 

  Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns:

  • Í slíkum tilvikum verður barnið skráð í sama trúfélag eða lífsskoðunarfélag og móðir, þar sem hún fer ein með forsjá þar til gengið er frá samkomulagi um forsjá barns hjá sýslumanni.

  Forsjármenn barns geta tilkynnt um breytingar á skráningu í eða úr trú- eða lífsskoðunarfélag þess. Skírn jafngildir ekki skráningu í trú- eða lífsskoðunarfélag.

  Erlendir ríkisborgarar

  Erlendir ríkisborgarar eru skráðir í ótilgreint trúfélag við nýskráningu í þjóðskrá. Tilkynna má um breytta  skráningu í trúfélag, lífsskoðunarfélag eða skráningu utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga með því að skila eyðublaði A-280 til Þjóðskrár Íslands.

 • 16 ára og eldri:

  Einstaklingar sem eru orðnir eldri en 16 ára geta sjálfir tekið ákvörðun um skráningu í trú- eða lífsskoðunarfélag eða breytt skráningu sinni með tilkynningu á eyðublaði A-280

  Þeir sem ekki geta nýtt sér rafræna tilkynningu um skráningu í trú-eða lífsskoðunarfélag geta mætt í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands eða haft samband við þjónustuver.

   

  Yngri en 16 ára:

  Forsjármenn þurfa að undirrita tilkynningu um breytta skráningu barns í trú- eða lífsskoðunarfélag.  Hafi barn náð 12 ára aldri skal það einnig undirrita tilkynninguna.

  Þeir sem ekki geta nýtt sér rafræna tilkynningu um skráningu í trú-eða lífsskoðunarfélag geta mætt í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands eða haft samband við þjónustuver.

   

Athugið

01

Börn eru skráð í eða utan trú- eða lífsskoðunarfélaga við nýskráningu í þjóðskrá þ.e. við fæðingu.

02

Hafi barn náð 12 ára aldri þarf það að samþykkja breytingu á skráningu á trú- eða lífsskoðunarfélagi.