Athugið!
Heimilt er að breyta nöfnum ef skilyrði mannanafnalaga eru uppfyllt. Nafnbreytingar eru heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á.

Hverju má breyta?

Eigin- og millinöfn mega samtals vera 3 og kenninöfn 2. Að hámarki má bera 5 nöfn.

  • Eiginnafn. Ef óskað er eftir nafni sem ekki er á mannanafnaskrá þá áframsendir Þjóðskrá til mannanafnanefndar.
  • Millinafn. Millinöfn hafa ákveðna sérstöðu og gilda mismunandi reglur. Millinöfn eiga að vera á mannanafnaskrá en jafnframt er heimilt að bera eiginnafn foreldris í eignarfalli sem millinafn auk þess er í sumum tilfellum heimilt að bera ættarnafn sem millinafn. Íslenskur ríkisborgari má einungis taka upp ættarnafn maka sem millinafn
  • Kenninafn. Kenning til móður eða föður eða beggja eða ættarnafn hafi einstaklingur rétt á að bera það. Til þess að mega bera ættarnafn sem kenninafn þarf að sýna fram á að ættingi í beinan legg hafi haft nafnið skráð í þjóðskrá við gildistöku mannanafnalaga haustið1991 og síðar.  Íslenskur ríkisborgari sem vill bera ættarnafn maka getur einungis tekið það upp sem millinafn. 

Nafnbreytingar eru gjaldskyldar ef:

  • Verið er að fella niður eða taka upp eiginnafni, breyta röð eiginnafna.
  • Taka á upp eða fella niður millinafn sem er á mannanafnaskrá, taka á upp eiginnafn foreldris í eignarfalli sem millinafn eða taka á upp sérstakt millinafn sem ekki er ættarnafn.
  • Kenna á feðrað barn við stjúpforeldri.
  • Kenna á fósturbarn í varanlegu fóstri til fósturforeldris.
  • Þú ert íslenskur ríkisborgari sem varð að breyta nafni sínu við upptöku íslensks ríkisfangs þá er þér og niðjum þínum heimilt að taka aftur upp þau nafn/nöfn sem felld voru niður.

Erlendir stafir eru ekki skráðir í þjóðskrá. Til erlendra staftákna teljast tákn sem ekki eru í íslenska stafrófinu. Erlendir bókstafir eru umritaðir samkvæmt ákveðnum reglum.

Nafnbreyting Íslendinga búsetta erlendis

Íslendingar með lögheimili í útlöndum þurfa að fá nafni sínu breytt í því landi sem þeir búa. Eftir að nafni hefur verið breytt í útlöndum þarf senda staðfestingu til Þjóðskrár. Staðfesting getur verið vottorð frá erlendu stjórnvaldi eða löggilt skilríki þar sem nýja nafnið kemur fram. Afrit af löggiltum skilríkjum þarf að fylgja.

Ráðlagt er að hafa nöfn skráð eins á Íslandi og erlendis. Þeir sem bera annað nafn í þjóðskrá en þeir eru skráðir með erlendis geta lent í vandræðum með að sýna fram á að þeir séu einn og sami maðurinn.

Nafnbreyting erlendra ríkisborgara

Erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi geta sótt um nafnbreytingu á grundvelli laga um mannanöfn.
Athugið að nafnbreytingar sem leyfðar eru hérlendis gætu verið óheimilar í heimalandinu.

Samþykki

Ef breyta á nafni barns þá þarf ávallt samþykki beggja forsjármanna. Hafi forsjá breyst frá því að barnið var nefnt þá þarf jafnframt samþykki þess sem fór með forsjá barnsins við upprunalegu nafngjöf. Ef barnið er 12 ára eða eldra þarf samþykki þess.

Ef breyta á kenninafni barns þá þarf ávallt samþykki þess sem barnið er nú kennt við. Ef kenna á barn til stjúpforeldris eða fósturforeldris þá þarf ávallt samþykki foreldra þrátt fyrir að barn sé ekki kennt við það né fari með forsjá barnsins.

Nafnbreytingar eru heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á. Ef nafni barns er breytt þá hefur það ekki áhrif á möguleika þess að óska eftir nafnbreytingu eftir 18 ára aldur.