Tilkynning um fæðingu berst frá heilbrigðisstofnun eða ljósmóður til Þjóðskrár.
Börn fædd á Íslandi eru því skráð í þjóðskrá skömmu eftir fæðingu.
Upplýsingar um foreldra barns eru skráðar. Móðir barns er skráð samkvæmt upplýsingum á fæðingartilkynningu. Ef móðir er í hjúskap eða í skráðri sambúð með lýstum föður þá er maki skráður faðir barns. Barnið er þá sjálfkrafa kennt til föður við skráningu í þjóðskrá. Séu mæður tvær og í hjúskap eða skráðri sambúð, þá gilda aðrar reglur, sjá Foreldrar og forsjá hér neðar. Ef móðir er ekki í hjúskap/skráðri sambúð við fæðingu barns þá telst barn ófeðrað. Móður er skylt að feðra barn sitt, sjá nánar Skráning foreldra.
Upplýsingar um forsjármenn barns eru skráðar. Sé móðir í hjúskap eða skráðri sambúð með lýstum föður þá er hún og maki skráð með sameiginlega forsjá við fæðingu. Ef móðir er hvorki í hjúskap né skráðri sambúð með lýstum föður við fæðingu barns þá fer hún ein með forsjá barns. Forsjá breytist ekki sjálfkrafa þótt barn sé feðrað síðar.