Niðurstaða vinnu undanfarinna ára, í samráði við stærstu hagaðila, varð sú að allar kennitölur, bæði kerfiskennitölur og kennitölur einstaklinga skráðar í þjóðskrá, verða án útreiknaðar vartölu og standast því ekki vartölupróf.
Sú breyting tekur gildi frá og með 18. febrúar 2026.
Með afnámi vartölu er hægt að fjölga kennitölum umtalsvert.
Gervikennitölur til prófunar fyrir kerfi
Þjóðskrá hefur nú lagt fram 6 gervikennitölur, 3 börn og 3 fullorðna, sem ekki standast vartölupróf. Fyrirtæki og stofnanir geta því prófað í sínum kerfum til að kanna hvort þau hleypi kennitölum án vartölu í gegn.
Nota þarf tvær kennitölur, sem ekki standast vartölupróf, til að prófa kerfi. Kennitölu sem finnst í þjóðskrá og kennitölu sem ekki finnst í þjóðskrá.
- Hvorug kennitalan virkar = Vartölupróf notað í kerfi eða undirkerfum
- Kennitalan úr þjóðskrá virkar = Kerfi staðreynir kennitölur í þjóðskrá og er ekki að nota vartölupróf
- Báðar kennitölur virka = Kerfi er hvorki að nota þjóðskrá eða vartölupróf til staðfestingar
Á þessari slóð er hægt að sækja gervikennitölur sem ekki standast vartölupróf
Kerfi með vartöluprófi
Afar mikilvægt að keyra gervikennitölurnar í gegnum kerfin til að sjá hvort þau stoppi á vartölu. Ef svo er, er mikilvægt að vartölupróf sé tekið af í kerfunum svo gagnaflutningur brotni ekki. Við vitum að nú þegar hafa mörg fyrirtæki og stofnanir tekið vartölupróf af en þau sem ekki hafa gert það ættu endilega að huga að því sem fyrst.
Aðgangur að gögnum úr þjóðskrá
Fyrirtækjum og stofnunum stendur til boða að nota skrár Þjóðskrár vegna starfsemi sinnar. Sækja þarf um aðgang og gera samning við Þjóðskrá áður en gögn verða aðgengileg hjá miðlara. Sjá nánar um aðgang að þjóðskrá.
Ef spurningar vakna eða eitthvað er óljóst þá vinsamlegast sendið fyrirspurnir á upplysingar@skra.is