Um kerfiskennitölur

Athugið!
Skráning á kerfiskennitöluskrá er eingöngu fyrir einstaklinga sem dvelja skemur en 3-6 mánuði á Íslandi eða munu ekki dvelja hér á landi. Skráningin veitir engin réttindi. Eingöngu opinberir aðilar geta sótt um kerfiskennitölur fyrir erlenda ríkisborgara.

Tilgangur kerfiskennitölu

Almennt viðmið um útgáfu kerfiskennitölu á kerfiskennitöluskrá (áður utangarðsskrá) er að kerfisleg þörf er á einkvæmu auðkenni gagnvart hinu opinbera. Það getur til að mynda verið nauðsynlegt að geta aðgreint einstaklinga svo unnt sé að skiptast á upplýsingum um einstakling við aðrar stofnanir eða fyrirtæki, eins ef lög, reglur eða reglugerðir kveða á um nauðsyn kennitölu.

Ný kerfiskennitala

Framundan er sú breyting að kerfiskennitala mun verða aðgreinanleg frá kennitölum einstaklinga á einstaklingaskrá. Þessi breyting átti að taka gildi þann 1. nóvember 2021, en hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma. Upplýsingar vegna þessa verða uppfærðar þegar ný gildisdagsetning liggur fyrir. Núverandi kerfiskennitala er á sama formi og kennitala á þjóðskrá. Með lögum um skráningu einstaklinga nr. 140/2019 var lögfest að þessar tvær kennitölur skulu vera aðgreinanlegar.

Kerfiskennitalan mun vera aðgreinanleg með þeim hætti að hún mun ekki endurspegla fæðingardag og ár, líkt og kennitölur á þjóðskrá gera. Nýja kerfiskennitalan mun samanstanda af tíu tölustöfum og byrja ávallt á 8 eða 9 og hinar tölurnar verða tilviljanakenndar.

  • Dæmi : 892350-1739

Við útgáfu kerfiskennitölu eru skráðar tilteknar persónuupplýsingar í kerfiskennitöluskrá um þann einstakling sem fær útgefna kerfiskennitöluna. Það þýðir að þó að fæðingardagur einstaklinga sé ekki lengur tilgreindur í kerfiskennitölunni sjálfri þá er honum, ásamt fleiri upplýsingum um viðkomandi, miðlað í kerfiskennitöluskrá og því jafn aðgengilegar og áður.

Umsóknarferli

Viðeigandi opinber aðili sækir um skráningu á kerfiskennitöluskrá og þar með útgáfu á kerfiskennitölu, rafrænt á vef Þjóðskrár. Athugið að afrit af vegabréfi eða löggiltu ferðaskilríki þess sem sótt er um kennitölu fyrir þarf að fylgja með umsókninni og vera í gildi á þeim tíma sem sótt er um.

Upplýsingafundur maí 2021

Glærur frá upplýsingafundi um kerfiskennitölur sem haldinn var 20. maí 2021.

Nánar um upplýsingafund

Lög um skráningu einstaklinga

Skoða nánar lög nr. 140/2019 um skráningu einstaklinga.

Skoða nánar