Skráning forsjár og lögheimilisforeldris

Þjóðskrá skráir forsjá barna á grundvelli hjúskaparstöðu foreldra við fæðingu og breytingu á forsjá á grundvelli gagna sem stofnuninni berast til skráningar samkvæmt lögum t.d. gögnum um hjúskapar- eða samvistarslit foreldra, samkomulag foreldra um forsjá barns, dómum og erlendum gögnum. 

Þjóðskrá gefur út vottorð um forsjá barna. 

Við fæðingu

Sé móðir í hjúskap eða skráðri sambúð með lýstum föður þá eru hún og maki skráð með sameiginlega forsjá við fæðingu, annars fer hún ein með forsjá barns eða þar til lögð eru inn gögn sem staðfesta breytta forsjá.

Breytingar á forsjá barns

  • Forsjá barns verður sjálfkrafa sameiginleg ef skráðir foreldrar þess ganga í hjúskap eða skrá sig í sambúð eftir fæðingu þess.
  • Forsjá barns verður ekki sameiginleg á grundvelli faðernisviðurkenningar né við það að foreldrar búi á sama lögheimili.
  • Sýslumenn og dómstólar tilkynna Þjóðskrá um hverjir fara með forsjá barns samkvæmt samkomulagi eða dómi.
  • Forsjá á grundvelli erlendra gagna

Sameiginleg forsjá foreldra ekki í hjúskap eða skráðri sambúð

Í tilvikum þar sem forsjá er sameiginleg þarf lögum samkvæmt að tilgreina hver telst lögheimilisforeldri barns. Tilgreining lögheimilisforeldris er gert samhliða ákvörðun um forsjá barns hjá sýslumanni eða dómstólum.

Foreldrar með sameiginlega forsjá sem búa ekki saman og vilja flytja lögheimili barns frá öðru foreldrinu til hins, þurfa að leita eftir staðfestingu sýslumanns á samningnum. Sýslumaður sendir staðfestan samning til Þjóðskrár til skráningar.

Búseta barns erlendis

Ef gögnum um forsjá er ekki framvísað við flutning til landsins þá er ekki hægt að skrá forsjá barna, sem getur haft áhrif á vottorða- og vegabréfaútgáfu og aðrar skráningar sem varða barnið og hagi þess síðar meir. Þjóðskrá hvetur forsjáraðila því til að skila inn gögnum um forsjá þegar flutt er til landsins til að forðast óþarfa vandræði síðar meir.

Þrátt fyrir að forsjá hafi verið skráð hérlendis áður en flutt var erlendis hvetur Þjóðskrá ávallt til þess að forsjárgögnum frá því landi sem flutt er frá sé skilað til stofnunarinnar þegar tilkynnt er um flutning barns til landsins. Með því er hægt að uppfæra og staðfesta skráningu forsjár barns strax við heimkomu.

Upplýsingar um forsjá barna

Upplýsingar um skráða foreldra barna sinna geta foreldrar fundið á Mínum síðum á Ísland.is

Nánar á Ísland.is

Panta forsjárvottorð

Þjóðskrá Íslands gefur m.a. út forsjárvottorð sem panta má rafrænt.

Panta vottorð

Lögheimili barns

Nánar um lögheimili barns á vef Ísland.is

Sjá nánar