Copy of Eigin framfærsla-ísl

  • Þú getur verið búsettur á Íslandi á grundvelli eigin framfærslu ef

    • Þú ert ríkisborgari EES/EFTA ríkis.
    • Þú hefur nægilegt fé til að framfleyta þér eða,
    • Annar einstaklingur, eins og fjölskyldumeðlimur, getur framfleytt þér.
  • Þú þarft að geta framfleytt sjálfum þér.

    Við vinnslu umsóknar þinnar metum við hverja umsókn fyrir sig hvort þú hafir nægilegt fjármagn til að sjá fyrir þér. Framfærsla þín mun alltaf vera fullnægjandi ef þú hefur fjármagn sem jafngildir eða er hærra en er lágmarksframfærsluviðmið í því sveitarfélagi sem þú býrð í.

    • Almennt er miðað við að einstaklingar hafi 247.572 kr. til mánaðarlegrar framfærslu.
    • Almennt er miðað við að hjón hafi 396.115 kr. til mánaðarlegrar framfærslu.
    • Afkomendur eldri en 18 ára sem dvelja hjá foreldrum þurfa almennt að hafa 123.786 kr. til mánaðarlegrar framfærslu
    • Þegar einstaklingur eldri en 18 ára er á framfæri ættingja, þarf ættingi almennt að hafa 456.163 kr. til mánaðarlegrar framfærslu.
    • Vakin er athygli á að viðmiðið getur verið breytilegt. Persónulegar aðstæður umsækjanda eru teknar til greina við vinnslu umsóknar.

    Þú þarft að leggja fram gögn sem sýna fram á að þú getir framfleytt þér og þinni fjölskyldu í að minnsta kosti 12 mánuði eða á meðan dvöl þinni stendur, standi dvöl yfir í skemmri tíma.

    Þjóðskrá Íslands getur síðar, óskað eftir að þú leggir fram gögn sem staðfesta að þú uppfyllir enn skilyrði til dvalar.

    Þú þarft að hafa einkasjúkratryggingu sem tryggir alla áhættu þar til þú hefur haft lögheimili á Íslandi í 6 mánuði. Sex mánaða lögheimilisskráning á Íslandi er forsenda þess að falla undir sjúkratryggingakerfi almannatrygginga.

    Það er á ábyrgð hvers og eins að þekkja skilmála sinnar tryggingar og tryggingafélags og að hún sé fullnægjandi og gild á Íslandi.

    EES/EFTA ríkisborgarar sem fá lífeyrisgreiðslur frá öðru EES/EFTA ríki kunna að eiga rétt til þess að fá útgefið S1 sjúkratryggingavottorð frá því landi sem að greiðslurnar stafa. Til þess að kanna hvort þú eigir rétt á slíku vottorði er bent á að hafa samband við sjúkratryggingastofnun þess lands.

    Eigir þú rétt á S1 vottorði, þarf að afhenda það Þjóðskrá Íslands. Það þarf einnig að berast Sjúkratryggingum Íslands, en Þjóðskrá Íslands getur framsent vottorðið sé þess óskað.

    Athugið. Misnotkun eða svik geta leitt til þess að dvalarréttur einstaklings verði afturkallaður. 

  • Sem ríkisborgari EES/EFTA átt þú rétt til að dvelja og vinna á Íslandi.

    Kennitalan er nauðsynleg á Íslandi til að t.d. opna bankareikning.

    Þú getur komið með fjölskyldu þína til Íslands og þurfa þau einnig að sækja um lögheimilisskráningu.

    EES/EFTA borgarar sem dvelja á Íslandi í 5 ár, geta átt rétt á ótímabundnum dvalarrétti ef þeir uppfylla skilyrði.

  • Ef þú hyggst dvelja hér á landi skemur en 3 mánuði þá uppfyllir þú ekki skilyrði til lögheimilisskráningar og getur sótt um kerfiskennitölu, sjá nánar hér.  Ef þú ert í atvinnuleit, hefur þú rétt til dvalar í allt að 6 mánuði áður en þú sækir um lögheimilisskráningu.

    Ef þú hyggst dvelja hér á landi lengur en 3 mánuði þarftu að sækja um lögheimilisskráningu á Íslandi. Þá hefur þú rétt til að dvelja á Íslandi svo lengi sem þú uppfyllir skilyrði til lögheimilisskráningar. 

  • Ef þú fékkst lögheimilisskráningu á grundvelli eigin framfærslu og getur ekki framfleytt sjálfum þér lengur, þá getur þú dvalið á Íslandi meðan þú uppfyllir skilyrði til lögheimilisskráningar, eins og t.d. sem :

    • Launþegi
    • Sjálfstætt starfandi
    • Námsmaður
    • Fjölskyldumeðlimur
    • Starfsmaður erlends fyrirtækis

    Ef þú ert að fara úr landi vegna þess að þú getur ekki framfleytt þér lengur og uppfyllir þar af leiðandi ekki lengur skilyrði til lögheimilisskráningar, þarf að tilkynna flutning úr landi hér.

  • Einstaklingum er heimilt að fara erlendis í allt að 6 mánuði án þess að skrá lögheimili sitt úr landi. 

    Ekki þarf að skrá sig úr landi vegna dvalar erlendis lengur en 6 mánuði ef eitthvert eftirfarandi skilyrða á við:
    - Lengri fjarvera í eitt eða fleiri skipti vegna skyldubundinnar herþjónustu.
    - Fjarvera að hámarki 12 mánuði samfleytt af áríðandi ástæðum, svo sem vegna þungunar og barneignar, alvarlegra veikinda, náms eða starfsnáms eða starfa sem viðkomandi er sendur til í öðru EES/EFTA ríki eða þriðja landi.

    Ef þú ferð úr landi lengur en 6 mánuði og engin af ofangreindum ástæðum eiga við, þarftu að skrá þig úr landi hérNánari upplýsingar um flutninga úr landi er að finna hér.

    Ef þú skráðir þig úr landi, en ert kominn aftur til landsins, þarf að sækja aftur um lögheimilisskráningu innan 3 mánaða með umsókn A-271. 

    Hafi EES/EFTA ríkisborgari fengið ótímabundinn dvalarrétt á Íslandi, hefur dvöl erlendis ekki áhrif á dvalarrétt hans nema hún vari lengur en tvö ár.

    Vakin er athygli á að ekki heimilt að vera með skráð lögheimili í tveimur löndum á sama tíma, samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur.

  • Þú getur sótt um lögheimilisskráningu með umsókn A-270 sem er að finna hægra megin á síðunni.

    Með umsókn þarf ávallt að leggja fram gilt vegabréf eða persónuskilríki ásamt nauðsynlegum gögnum sem sýna fram á að þú uppfyllir skilyrði til lögheimilisskráningar.

    Hvernig get ég sýnt fram á framfærslugögn?

    Þú getur sýnt fram á að þú getur framfleytt þér með t.d. 

    • Bankayfirlit (þar sem upplýsingar um eiganda reiknings, dagsetningu, gjaldmiðil og upphæð koma fram). Yfirlitið má ekki vera eldra en 2 vikna gamalt þegar það er sent inn.
    • Gögn um aðra fjármuni, ef við á. t.d. lífeyrissjóðsgreiðslur frá heimalandi, atvinnuleysisbætur, laun erlendis, námsstyrki o.s.frv.
    • Ef þú ert á framfæri annars, þarf að skila inn:
    • Afrit af vegabréfi eða persónuskilríkjum þess sem framfleytir þér.
    • Framfærsluyfirlýsing, undirrituð af þeim sem mun framfleyta þér meðan dvöl á Íslandi varir.

    Valkvætt er að senda eftirfarandi gögn með umsókn en ávallt þarf að sýna frumrit við komu til landsins :

    • Fæðingarvottorð
    • Hjúskaparstöðuvottorð. Þar sem skráning hjúskaparstöðu getur haft áhrif á réttindi einstaklinga, og eftir atvikum barna þeirra, ráðleggur stofnunin að því vottorði sé skilað inn (ef við á).

    Öll gögn skulu vera á íslensku eða ensku. Ef gögn eru á öðru tungumáli, skal skila inn frumriti ásamt löggildri þýðingu frá löggildum skjalaþýðanda.

Sækja um lögheimilisskráningu hér!

Opna umsókn