Hvað er Þjóðskrá?

Þjóðskrá er grunnskrá ríkisins og er hún notuð til grundvallar ákvarðana um réttindi og skyldur einstaklinga með lögheimili á Íslandi og íslenskra ríkisborgara t.d. ákvörðun um skattskyldu, kosningarétt, rétt á íslensku vegabréfi, aðgang að ýmsum réttindum sem grundvallast t.d. á lögheimili eða hjúskaparstöðu.

Mikilvægt er að skráning í þjóðskrá sé rétt og hægt er að nálgast upplýsingar um hvernig þú ert skráður í þjóðskrá á Mínar síður á Ísland.is.

Einstaklingar sem aldrei hafa átt lögheimili á Íslandi eru skráðir á kerfiskennitöluskrá (áður utangarðsskrá) og látnir á horfinnaskrá.

Hvað er skráð um mig í þjóðskrá?
Í þjóðskrá eru skráðar tilteknar grunnupplýsingar um alla einstaklinga sem eru eða hafa verið skráðir til lögheimilis á Íslandi og íslenskra ríkisborgara búsettir erlendis auk breytinga á þeim.

  • Kennitala
  • Kyn
  • Fæðingarstaður
  • Ríkisfang
  • Nöfn (eiginnafn, millinafn, kenninafn, birtingarnafn og stytt nafn)
  • Hjúskaparstaða
  • Sambúðarstaða
  • Fjölskyldunúmer
  • Lögheimili
  • Aðsetur (ef við á)
  • Aðild að trú- og lífsskoðunarfélögum
  • Forsjá barna og tengsl barna við foreldra og kjörforeldra
  • Bannmerking – beiðni um að vera undanþegin frá úrtaksvinnslum á grundvelli þjóðskrár.

Einstaklingar sem aldrei hafa átt lögheimili á Íslandi eru skráðir á kerfiskennitöluskrá (áður utangarðsskrá) og látnir á horfinnaskrá. Þjóðskrá Íslands heldur jafnframt skrá um lögræði einstaklinga. 

Hvaðan berast upplýsingar til skráningar í þjóðskrá?

Beiðnir/tilkynningar um skráningu í þjóðskrá berast ýmist frá opinberum aðilum eða frá einstaklingum.

Frá opinberum aðilum berast lögbundnar tilkynningar t.d. fæðingartilkynningar, lögskilnaðir, hjónavígslur, forsjá og nafngjöf.

Frá einstaklingum berast t.d. tilkynningar um búferlaflutninga, nafngjafir barna, skráning sambúðar, nafnbreytingar, bannmerkingar og breytingar á högum fólks sem fara fram í útlöndum, t.d. hjónavígslur, fæðingar, nafnbreytingar og skilnaðir.

Hver fær aðgang að upplýsingum um mig?

Upplýsingar úr þjóðskrá eru veittar með vottorðum úr skránni og með rafrænu aðgengi að upplýsingunum.

Opinberir aðilar og lögaðilar geta fengið aðgang að þjóðskrá. Upplýsingar um hvernig miðlun upplýsinga úr þjóðskrá er háttað.