Þjóðskrá14. apríl 2015

Dreifing á lengra nafnasvæði til notenda þjóðskrár

Þjóðskrá Íslands vekur athygli á því að nú geta miðlarar fengið þjóðskrá með lengra birtingarnafni einstaklinga, þ.e. 44 stafir í stað 31 stafs

Þjóðskrá Íslands vekur athygli á því að nú geta miðlarar fengið þjóðskrá með lengra birtingarnafni einstaklinga, þ.e. 44 stafir í stað 31 stafs. Hvenær einstaklingar mega vænta þess að birtingarnafn þeirra komi fram í skrám opinberra aðila og annarra notenda þjóðskrár er að mestu leyti í höndum miðlara og hjá endanotendum sem þurfa að aðlaga sín starfskerfi að lengra nafnasvæði. Miðlurum og viðskiptavinum þeirra er gefinn aðlögunartími til 1. janúar 2018 til þess að aðlaga sín kerfi en þá verður núverandi dreifingu á nafnasvæði sem inniheldur 31 stafbil hætt. Á meðan á aðlögunartímabili stendur kunna einstaklingar að verða þess varir að nöfn þeirra geti birst á mismunandi hátt við uppflettingu, t.d. í heimabönkum og hjá læknum sem skýrist af því hvort sá sem veitir upplýsingarnar sé búin að aðlaga sín kerfi að lengra nafnasvæði eða ekki. 

Þjóðskrá Íslands hefur í rúmt ár skráð fullt nafn nýskráðra einstaklinga í þjóðskrá og auk þess unnið að því að skrá og staðfesta full nöfn þeirra sem þegar eru skráðir. Fullt nafn er skráð án takmörkunar á fjölda stafa og því skipt í eiginnafn/nöfn, millinafn ef við á og kenninafn/nöfn. Að auki er skráð svokallað birtingarnafn sem er 44 stafir sem nú er miðlað, ennfremur er skráð stytt nafn sem er 31 stafur, en hætt verður að dreifa því 1. janúar 2018. Með miðlun er vísað til dreifingar á þjóðskrá til viðskiptavina og þess nafns sem kemur upp við uppflettingu í skránni, t.d. í heimabönkum, hjá læknum eða sveitarfélögum. Birtingarnafn endurspeglar að öllu jöfnu fullt nafn manns, en er þó takmarkað við 44 stafi. Fullt nafn einstaklings án takmörkunar á fjölda stafa er sýnilegt á mínum síðum á Ísland.is  

Verkefnið að skrá fullt nafn skráðra einstaklinga er umfangsmikið.  Ekki er hægt að fullyrða um fullt nafn einstaklinga öðru vísi en að yfirfara og meta upprunagögn þar sem upplýsingar um fullt nafn koma fyrir t.d. skírnarskýrslur og manntalsgögn. Ef misræmi er á milli upprunagagna og þess nafns sem skráð er í þjóðskrá þarf að tryggja vandaða stjórnsýslumeðferð.  Dæmi um misræmi sem hafa komið í ljós er t.d. að einstaklingur beri nöfn sem viðkomandi var ekki kunnugt um eða taldi að hefði verið fellt niður af einhverjum ástæðum.  Síðan verkefnið hófst hafa t.a.m. 317 einstaklingar ákveðið að fella niður nöfn sem þeir báru samkvæmt upprunagögnum.  Ástæður fyrir því að einstaklingur ákveður að fella niður nöfn geta verið margvíslegar t.d. að honum var ekki kunnugt um að hann bæri tiltekið nafn eða vildi ekki af einhverjum ástæðum að það yrði skráð til fulls og kæmi fram í vegabréfi viðkomandi eða annars staðar. Búið er að skrá og staðfesta fullt nafn hjá 33% skráðra einstaklinga í þjóðskrá sem eru með lögheimili á Íslandi eða um hundrað þúsund manns.
 

Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar