Þjóðskrá27. október 2016

Skráning umgengnisforeldra í Þjóðskrá

Þjóðskrá Íslands hóf skráningu á tengslum á milli barna og foreldra í lok árs 2015

Þjóðskrá Íslands hóf skráningu á tengslum á milli barna og foreldra í lok árs 2015 og hóf birtingu upplýsinga úr skránni á Mínum síðum á Íslandi.is í apríl 2016

Tæplega 98 þúsund börn óháð þjóðerni og búsetu eru skráð í þjóðskrá og er búið að tengja 62% þeirra við foreldra.  Foreldrar sem eiga börn fædd 2007 og síðar geta séð upplýsingar um börnin sín á Mínum síðum á Ísland.is. Áætlað er að búið verði að tengja öll börn fædd 2005 og síðar við foreldra fyrir árslok.

Forsenda þess að Þjóðskrá Íslands geti skráð upplýsingar um umgengnisforeldra er að öll börn séu tengd foreldrum sínum í opinberri skrá, þ.e. að fyrir liggi tenging á milli barns og foreldris. Einnig þarf að tryggja að Þjóðskrá Íslands fái með lagabreytingu það hlutverk að skrá umgengni og berist þá gögn um umgengni til skráningar frá þar til bærum stjórnvöldum á sama hátt og stofnuninni berast nú lögum samkvæmt upplýsingar um fæðingar, feðranir, forsjá barna o.s.frv. 

Þjóðskrá Íslands hefur jafnframt hafið skráningu á forsjá barna með rafrænum hætti þ.e. að tengja börn við þá sem fara með forsjá á grundvelli gagna sem stofnuninni berast lögum samkvæmt. Stefnt er að því að upplýsingar um forsjá barna verði birtar á Mínum síðum þeirra sem fara með forsjá barna í janúar 2017.

Vakin er sérstök athygli á því að þrátt fyrir að Þjóðskrá Íslands hafi hafist handa við að skrá tengsl á milli foreldra og barna auk skráningar forsjár þá hefur ekki verið ráðist í það verkefni að skilgreina hverjir hafi heimild til að fá aðgang að upplýsingunum né með hvaða hætti þeim skuli miðlað til þriðja aðila. 

Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar