Nýtt fasteignanúmer og ítarlegri skráning staðfanga

01.03.2018

Nýtt fasteignanúmer og ítarlegri skráning staðfanga

Þjóðskrá Íslands innleiðir í vor breytingar á uppbyggingu fasteignaskrár. Fyrsta skrefið verður stigið 8. apríl nk. þegar nýtt fasteignanúmer verður til og breytingar verða gerðar á skráningu staðfanga á fasteignum. Fjölmargir styðjast við og nota fasteignaskrána s.s. sveitarfélög, sýslumenn, vátryggingafélög, Hagstofa Íslands, bankar, lífeyrissjóðir, fasteignasalar, margar opinberar stofnanir og síðast en ekki síst fasteignaeigendur. Á síðustu árum hefur stofnunin í samstarfi við lykilaðila undirbúið breytingar á fasteignaskránni með það að markmiði að öll umsýsla og hagtölugerð verði með sem bestum hætti. Í því felst m.a. að fasteignaskráin verður aðlöguð með hliðsjón af alþjóðlegum stöðlum og viðmiðunum. 

Innleiðing fasteignanúmers
Í dag eru rúmlega 197.000 fasteignir í landinu. Fastanúmer hefur verið notað sem þinglýsingarandlag fasteigna nema jarða þar sem landnúmer hefur verið þinglýsingarandlagið. Frá og með 8. apríl nk. leysir nýja fasteignanúmerið þessi tvö númer af hólmi sem þinglýsingarandlag. Númerið helst það sama en um breytta birtingamynd er að ræða. Þegar um er að ræða jarðir, verður fastanúmer fyrstu einingar á öllum jörðum sem hefur notkunina „Jörð“ fasteignanúmer þeirra. Þessar breytingar hafa ekki áhrif á eignarhald eða önnur þinglýst réttindi tengdum fasteignunum. Gerður er skýr greinarmunur á eldri auðkennisnúmerum og nýju fasteignanúmeri. Fasteignanúmerið er sjö stafa upplýsingalaust raðnúmer með forskeytinu F og verður sett fram á forminu F1234567.  Landeignanúmer leysir landnúmerið af hólmi og verður sex stafa upplýsingalaust raðnúmer með forskeytinu L, sbr.  L123456.  Eldri númer halda sér en fá forskeytið F eða L.

Fækkun fastanúmera á jörðum
Hjá Þjóðskrá Íslands er verið að yfirfara framsetningu upplýsinga í fasteignaskrá. Á jörðum eru í mörgum tilfellum skráð mörg fastanúmer fyrir mismunandi mannvirki/réttindi og er oft á tíðum misræmi á eigendaskráningu þeirra. Eigendaskráning í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skal skv. lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 byggja á þinglýstum heimildum. Samkvæmt þinglýsingalögum eru fasteignir þinglýsingarandlag en ekki einstök mannvirki/réttindi. Fastanúmerum á jörðum verður því fækkað svo eftir standi aðeins eitt fasteignanúmer fyrir öll mannvirki/réttindi jarðarinnar og eigendaskráning í fasteignaskrá verður í samræmi við þinglýsingabók. Þjóðskrá Íslands hvetur því alla til að yfirfara skráningu fasteigna sinna og eftir atvikum hafa samband við viðkomandi sveitarfélag þar sem í einhverjum tilvikum kann að vera nauðsynlegt að stofna nýja lóð undir það mannvirki/réttindi sem eigendaskrá á með öðrum hætti en þinglýsingabók kveður á um.   

Ítarlegri skráning staðfanga
Eitt forgangsverkefna Þjóðskrár Íslands er að hefja skráningu einstaklinga niður á íbúðir. Skráning staðfanga í fasteignaskrá er lykilþáttur þess verkefnis. Staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um götuheiti, númer og hnit. Fasteignir geta verið samsettar úr mörgum mannvirkjum og hingað til hefur einungis verið hægt að skrá eitt staðfang á slíkar eignir. Dæmi um þetta er Reykjalundur sem samanstendur af mörgum mannvirkjum og götum. Þessar breytingar gera fasteignaskránna betri fyrir viðbragðsaðila, lögreglu og slökkvilið þar sem staðsetningar verða nákvæmari. Staðföngum er miðlað í leiðsögukerfi og kortavefsjár og þá verður hægt að sjá nákvæma staðsetningu mannvirkja sem tengist fasteignum á korti.

Nýr áskriftarvefur fasteigna
Samhliða innleiðingu fasteignanúmersins verður opnaður nýr áskriftarvefur að fasteignaskrá. Í honum verður öflug leitarvél og ný framsetning gagna sem byggð er á reynslu af fyrri áskriftarvef. Núverandi áskriftarvefur styður ekki lengur alla vefvafra og verður bætt úr því.  

Næstu skref
Þegar breytingar sem felast í nýju fasteignanúmeri og breyttri skráningu staðfanga hafa verið innleiddar verða næstu skref tekin með stefnu Þjóðskrár Íslands að leiðarljósi. Þjóðskrá Íslands leggur áherslu á að vera skilvirk, sjálfvirk og snjöll og einsetur sér að vera fyrirtaks upplýsingaveita sem innviðir samfélagsins geta reitt sig á. 

 


Til baka