Þjóðskrá16. desember 2020

Gögn um hlutlausa skráningu kyns miðlað til samfélagsins

Frá og með 6.janúar 2021 mun Þjóðskrá Íslands byrja að miðla upplýsingum um hlutlausa skráningu kyns. Í samstarfi við Samtökin ’78 var ákveðið að heiti fyrir hlutlaust kyn skyldi vera Kynsegin/annað.

Lög nr. 80/2019 sem veita einstaklingum rétt til að skilgreina kyn sitt tóku gildi 6. júlí 2019 og þar með val um hlutlausa skráningu kyns. 

Þjóðskrá Íslands ber að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns og var gefinn 18 mánaða aðlögunartími fyrir nauðsynlegar breytingar. Þessi vinna stendur allt til 6. janúar 2021 þegar miðlun á upplýsingum um hlutlausa skráningu kyns hefst.  

Þjóðskrá Íslands leitaði til Samtakanna ’78 eftir samstarfi við að finna heiti fyrir hlutlausa skráningu kyns og var niðurstaða þeirrar vinnu Kynsegin/annað. Þetta heiti er talið ná mestri sátt innan hinsegin samfélagsins og að flestir einstaklingar geti samsamað sig því. 

Einnig leitaði Þjóðskrá Íslands til Árnastofnunar með vafamál á einstaka heitum sem notuð eru í íslenskri tungu tengd kyni og hefur verið efnt til hýryrðakeppni hjá Samtökunum ´78 í samvinnu við Árnastofnun. Tilgangur keppninnar er að finna ný orð á íslenskri tungu sem hægt er að nota um stöðu kynsegin einstaklinga, t.d. hvaða orð skal nota um kynsegin einstakling sem misst hefur maka sinn. Þjóðskrá Íslands þakkar Samtökunum ’78 og Árnastofnun kærlega fyrir gott samstarf við þessa vinnu.

Birt hefur verið ný útgáfa af gervigögnum sem ætluð eru fyrir hugbúnaðarþróun fyrir kerfi þar sem notast er við gögn úr þjóðskrá. Nýja útgáfan tekur tillit til hlutlausrar skráningar kyns. Gervigögnin má finna á opingogn.is.

Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar