Fasteignir25. ágúst 2021

Fyrstu kaupendur - endurbætt upplýsingagjöf í Fasteignagátt Þjóðskrár

Finna má upplýsingar um meðalaldur, meðalstærð og meðalverð fasteigna fyrstu kaupenda í endurbættu talnaefni í Fasteignagátt Þjóðskrár.

Þjóðskrá hefur endurbætt upplýsingagjöf um fyrstu kaupendur á fasteignamarkaði. Finna má talnaefni um fyrstu kaupendur í Fasteignagátt Þjóðskrár.

Þjóðskrá hefur á síðustu árum meðal annars birt upplýsingar um hlutfall fyrstu kaupenda af öllum kaupendum. Ný birting sýnir jafnframt meðalaldur fasteignakaupenda, meðalstærð húsnæðis og meðalverð í fasteignaviðskiptum fyrir fyrstu kaupendur og fasteignakaupendur almennt. Birtingin byggir á skráningu kaupsamninga hjá Þjóðskrá og eru fyrstu kaupendur skilgreindir sem þeir einstaklingar sem hafa keypt fasteign og hafa ekki áður átt aðild að þinglýstri eignarheimild eða verið skráðir eigendur að fasteign í fasteignaskrá.

Gögn um fyrstu kaupendur uppfærast sjálfvirkt eftir því sem nýjar upplýsingar eru skráðar. 

Hér má sjá samantekt af því sem meðal annars má lesa út úr gögnunum um fyrstu kaupendur.

  • Á öðrum ársfjórðungi voru fyrstu kaupendur á Norðurlandi vestra 26,5 ára en 29,9 ára á Höfuðborgarsvæðinu. Meðalaldur fyrstu kaupenda um allt land var um 29,7 ár á meðan meðalaldur þeirra sem hafa keypt fasteign áður var um 47 ár.
  • Fyrstu kaupendur keyptu stærstu eignirnar á Norðurlandi Vestra sem voru að meðaltali 132,8 fermetrar á öðrum ársfjórðungi en minnstu eignirnar á Höfuðborgarsvæðinu sem voru að meðaltali um 94,7 fermetrar.
  • Meðalkaupverðið fyrir fyrstu kaupendur var hæst á höfuðborgarsvæðinu á öðrum ársfjórðungi eða um 50,4 m.kr. en lægst á Vestfjörðum eða um 25,5 m.kr. Þeir sem hafa keypt áður keyptu fasteignir fyrir að meðaltali 69,5 m.kr. á Höfuðborgarsvæðinu en um 28,4 m.kr. á Vestfjörðum.

 

 Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar