Þjóðskrá17. febrúar 2023

Þjóðskrá í öðru sæti í Stofnun ársins 2022

Þjóðskrá varð í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2022 og er því fyrirmyndarstofnun.

Niðurstöður voru kynntar í gær, 16. febrúar á hátíð Sameykis á Hilton Nordica. Aðeins Menntaskólinn á Egilsstöðum var ofar en Þjóðskrá í flokki meðalstórra stofnana.

Þegar horft er á heildarniðurstöður allra stofnana er Þjóðskrá í 14. sæti og tekur verulegt stökk eða úr sæti 77 frá síðasta ári. Gaman er að segja frá því að 98% þátttaka var hjá starfsfólki í könnuninni og niðurstöðurnar því svo sannarlega marktækar og því á allt starfsfólk þátt í þessum undraverða árangri, að hækka um 63 sæti frá fyrri könnun.

Þjóðskrá - fyrirmyndarstofnun 2022

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana.
Í könnuninni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti.
Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum.

Hildur Ragnars, forstjóri Þjóðskrár:
Þessi árangur er ekki eins manns verk, þess í stað er þetta árangur alls starfsfólksins. Árið var umbreytingasamt og krafðist mikils af okkur öllum og því er þessi niðurstaða einstaklega ljúf. Það er alveg ljóst að gildin okkar gleði, kraftur og samvinna standa fyrir sínu og leiða okkur áfram í öllum okkar verkefnum.

Starfsfólk Þjóðskrár
Starfsfólk Þjóðskrár með viðurkenninguna

Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar