Fólk06. mars 2024

Ný nafnskírteini

Útgáfa á nýjum nafnskírteinum er hafin hjá Þjóðskrá Íslands. Ný útgáfa nafnskírteina hefur verið lengi í undirbúningi, allt frá því að fyrsta verkáætlun var samþykkt árið 2007 og fram til ársins 2023 þegar ný lög um nafnskírteini tóku gildi. Þjóðskrá ber ábyrgð á útgáfu og afhendingu skírteinanna.

Nýju nafnskírteinin eru fullgild persónuskilríki og geta allir íslenskir ríkisborgarar óháð aldri sótt um nafnskírteinin og notað þau til auðkenningar.

Eldri nafnskírteini sem voru gefin út fyrir 1. janúar 2013 féllu úr gildi þann 1. desember 2023 með gildissetningu nýrra laga. Eldri nafnskírteini sem gefin hafa verið út eftir þann tíma og fram til 1.mars 2024 falla úr gildi 31. desember 2025.

Aukið öryggi og nýtt útlit

Með nýrri útgáfu nafnskírteina er verið að auka öryggi þeirra í samræmi við auknar kröfur sem gerðar eru til persónuskilríkja ásamt því að nafnskírteinin er í handhægri stærð í uppfærðu útliti. Nýju lögin um nafnskírteini byggja á, og innleiða, Evrópusambands reglugerð sem var gagngert sett til að auka öryggi persónuskilríkja og ferðaskilríkja innan Evrópusambandsins/Evrópska efnahagssvæðisins.  Með því að innleiða þessa reglugerð er Þjóðskrá að uppfylla kröfur Evrópusambandsins þar sem nýju nafnskírteinin eru í samræmi við önnur Evrópusambands lönd.  

Útlit nafnskírteinanna byggir á nýjum staðli frá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og er Ísland fyrsta landið í heiminum sem gefur út skilríki samkvæmt þessum nýja staðli.  Helsta breytingin er að andlitsmynd er mun stærri, sem auðveldar allan samanburð við handhafa kortsins.

Nafnskírteini sem ferðaskilríki

Nafnskírteini sem ferðaskilríki

Íslenskum ríkisborgurum stendur nú til boða að sækja um nafnskírteini sem ferðaskilríki.

Nafnskírteini sem eru ferðaskilríki er hægt að framvísa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í stað þess að framvísa vegabréfi. Nafnskírteinin staðfesta handhafa kortsins og ríkisfang. Skírteinin eru með örgjörva líkt og vegabréf og fylgja alþjóðlegum stöðlum og ESB-reglugerð.

Munurinn á nafnskírteinum sem ferðaskilríkjum og vegabréfum, er að vegabréf gilda sem ferðaskilríki til allra landa í heiminum en nafnskírteinin gilda innan landa Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Ferðaskilríki gilda innan landa Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Nafnskírteini sem ekki eru ferðaskilríki, gilda sem persónuskilríki og staðfesta persónu handhafa. Nafnskírteinin sýna ekki ríkisfang og eru ekki gild sem ferðaskilríki.

Handhægt persónuskilríki fyrir alla hópa

Auknar kröfur eru gerðar í samfélaginu um að einstaklingar auðkenni sig með gildum persónuskilríkjum og því nauðsynlegt að koma til móts við þá hópa sem ekki geta framvísað t.d. ökuskírteini.

Með nýju nafnskírteinunum geta ungmenni og aðrir hópar sannað á sér deili með framvísun þeirra og þá sérstaklega innanlands.   

Nafnskírteini ekki sem ferðaskilríki

Hildur Ragnars, forstjóri Þjóðskrár:

Starfsfólk Þjóðskrár hefur talað fyrir því í langan tíma um nauðsyn þess að á Íslandi séu í boði önnur örugg skilríki en vegabréf. Þar hefur farið fremstur í flokki Þorvarður Kári Ólafsson, skilríkjasérfræðingur stofnunarinnar en hann hefur verið óþreytandi við að kynna og tala fyrir því að Ísland gefi út örugg nafnskírteini líkt og gert er í öðrum löndum Evrópu. Það er því einstaklega ánægjulegt að kynna í dag ný nafnskírteini sem jafnframt eru örugg ferðaskilríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Það er trú mín og okkar hjá Þjóðskrá að nafnskírteini verði að finna hjá meiri hluta landsmanna á ólíkum aldri auk þess sem börn munu hafa tækifæri til að sækja um handhægt skilríki. En hingað til hefur eina gilda skilríkið fyrir börn verið vegabréf svo ætla mætti að nýju nafnskírteinin einfaldi þeirra veruleika svo um munar og jafnvel foreldra og forráðamanna þeirra.

Mig langar að þessu tilefni til að þakka innilega fyrir einstaklega gott samstarf við samstarfsaðila, við ráðuneyti og ekki síst starfsfólki Þjóðskrár sem hefur unnið ötullega að því að láta þetta verkefni verða að veruleika.

Til hamingju við öll!

Hildur Ragnars, forstjóri Þjóðskrár afhendir, Þorvarði Kára Ólafssyni, skilríkjasérfræðingi hjá Þjóðskrá, fyrsta nýja nafnskírteinið.

Að sækja um nafnskírteini

Hægt er að sækja um nýju nafnskírteinin hjá Sýslumönnum þegar í stað en frá og með 1. apríl n.k. hjá sendiráðum og ræðismönnum erlendis líkt og með vegabréf.

Þó að umsækjandi eigi gilt vegabréf með mynd þarf viðkomandi samt að mæta í eigin persónu á umsóknarstað bæði innanlands og erlendis til að sækja sérstaklega um nafnskírteini. Ekki er hægt að nota sömu mynd og er í vegabréfinu.

Sjá umsóknarstaði

Sama verð fyrir nafnskírteini hvort sem þau eru sem ferðaskilríki eða ekki.

Verð fyrir nafnskírteini er 4.600 kr. fyrir börn, öryrkja og aldraða og 9.200 kr. fyrir einstaklinga 18 ára og eldri.

Afgreiðslutími nafnskírteina er sami og á vegabréfum, eða allt að 6 virkir dagar.

Allar nánari upplýsingar um skírteinin og umsóknarferlið er að finna á skra.is/nafnskirteini.


Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar