Lög um kynrænt sjálfræði hafa tekið gildi

09.07.2019

Lög um kynrænt sjálfræði hafa tekið gildi

Nú geta einstaklingar óskað eftir breyttri skráningu á kyni og nafni samhliða á vef Þjóðskrár Íslands samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019.
Umsókn A-180 Kyn og nafn - skráning 
Umsókn A-182 Kyn og nafn - staðfesting forsjáraðila
og á ensku
Application A-181 Gender registration
Application A-183 Gender registration conformation

Lög þessi kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi.

Helstu breytingar hvað varðar skráningu í þjóðskrá eru:

  • Eiginnöfn miðast ekki lengur við kyn og einstaklingum því heimilt að bera hvert það eiginnafn sem skráð er á mannanafnaskrá. Einstaklingar sem eingöngu óska eftir breytingu á nafni sínu sækja um slíkt á formi A-113 (fullorðnir) og A-114 (börn)
  • Breyting á skráningu kyns er aðeins heimiluð einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars. Gjald fyrir breytingu á skráningu kyns er 9.000 kr.
  • Einstaklingar eiga rétt á að fá útgefin persónuskilríki sem samrýmast breyttri skráningu en sækja þarf um og greiða fyrir slíkt.
  • Börn undir 18 ára geta með fulltingi forsjáraðila óskað eftir breyttri skráningu á kyni. Ef börn njóta ekki stuðnings forsjáraðila sinna geta þau óskað eftir því að sérfræðinefnd taki mál þeirra fyrir.

Nýmæli í lögunum er að einstaklingar geta óskað eftir hlutlausri skráningu á kyni sínu í þjóðskrá og einstaklingum með hlutlausa skráningu kyns heimilt að nota nafn föður eða móður í eignar-falli án viðbótar eða að viðbættu bur. Vakin er athygli á því að stofnunin hefur 18 mánaða frest til að aðlaga kerfi sín til að hlutlausri kynskráningu.  Því er ekki hægt að verða við slíkri skráningu fyrr en að þeim fresti liðnum en tilkynnt verður um það á vef Þjóðskrár Íslands þegar skráning hlutlauss kyns verður möguleg.


Til baka